Viðskipti innlent

Ís­land færist upp um þrjú sæti á spillingar­lista

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Ísland fær þó sérstaka umfjöllun í skýrslunni vegna Samherjamálsins en samtökin veittu því sérstaka eftirtekt að Íslendingar eru meðal þeirra þjóða er sýnt hafa vanþóknun sína á spilltum stjórnarháttum æðstu valdhafa landsins á götum úti.
Ísland fær þó sérstaka umfjöllun í skýrslunni vegna Samherjamálsins en samtökin veittu því sérstaka eftirtekt að Íslendingar eru meðal þeirra þjóða er sýnt hafa vanþóknun sína á spilltum stjórnarháttum æðstu valdhafa landsins á götum úti. vísir/vilhelm

Ísland færist upp um þrjú sæti á nýjum lista Transparancy International þar sem reynt er að mæla hversu vel varin lönd eru gegn spillingu. Því ofar sem lönd eru á listanum því minni spilling er talin vera í landinu.

Ísland mælist nú í ellefta sæti af 180 mældum löndum en sem fyrr raða Norðurlöndin sér í efstu sæti listans og eru Danmörk, Noregur, Finnland og Svíþjóð á topp tíu.

Í fréttatilkynningu frá aðstandendum könnunarinnar hér á landi segir að listinn í ár sýni hversu erfitt er að uppræta kerfislæga spillingu, því litla sem enga breytingu er að finna á spillingarvísum flestra landa milli ára. Ísland

færist þó upp um þrjú sæti en of snemmt er að fullyrða um hvort það sé merki um að landið hafi tekið sig á í málaflokknum og hert löggjöf og aukið eftirlit með þáttum eins og hagsmunaárekstrum, vina- og frændhygli, fjárstyrkjum til stjórnmálaflokka, mútugreiðslum íslenskra fyrirtækja erlendis, og svo framvegis, eða hvort önnur lönd hafi einfaldlega færst til og Ísland því hlutfallslega einnig.

Ísland fær þó sérstaka umfjöllun í skýrslunni vegna Samherjamálsins en samtökin veittu því sérstaka eftirtekt að Íslendingar eru meðal þeirra þjóða er sýnt hafa vanþóknun sína á spilltum stjórnarháttum æðstu valdhafa landsins á götum úti.

Samherjamálið hafi vakið hneykslan fólks og leitt til mótmælaaðgerða á opinberum vettvangi í Reykjavík, sem meðal annars fólu í sér kröfu um afsögn núverandi sjávarútvegsráðherra, Kristjáns Þórs Júlíussonar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×