Körfubolti

Þórsarar tilkynna nýjan þjálfara um verslunarmannahelgina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þór endaði í ellefta og næstneðsta sæti Domino's deildar karla á síðasta tímabili.
Þór endaði í ellefta og næstneðsta sæti Domino's deildar karla á síðasta tímabili. vísir/bára

Þór Akureyri tilkynnir nýjan þjálfara karlaliðs félagsins í körfubolta um helgina. Lárus Jónsson hætti sem þjálfari Þórs eftir síðasta tímabil og tók við nöfnum þeirra í Þorlákshöfn.

Þórsarar eru eina lið Domino's deildar karla sem er enn þjálfaralaust, en ekki mikið lengur að sögn Hjálmars Pálssonar, formanns körfuknattleiksdeildar Þórs.

„Við tilkynnum um ráðningu 1. ágúst. Það eru nokkrar vikur síðan við gengum frá því,“ sagði Hjálmar í samtali við Vísi í dag.

En af hverju hefur þessi nýi þjálfari ekki enn verið kynntur?

„Hann er að klára önnur störf, þessi maður, og bað um tíma til að ganga frá sínum málum,“ svaraði Hjálmar.

Þór hefur samið við bandaríska leikstjórnandann Dedrick Basile sem lék í Finnlandi á síðasta tímabili. Þórsarar hafa einnig fengið Serbann Srdan Stojanovic frá Fjölni. Hjálmar sagði að frekari fréttir af leikmannamálum hjá Þór myndu berast á næstunni.

Þór endaði í 11. sæti Domino's deildarinnar á síðasta tímabili. Þegar því var slaufað vegna kórónuveirufaraldursins var ákveðið að Þórsarar myndu leika áfram í Domino's deildinni. Fjölnir féll og Höttur tók sæti þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×