Körfubolti

Keypti körfuboltaspjald með LeBron á 250 milljónir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Á fyrsta tímabili sínu í NBA-deildinni var LeBron James með 20,9 stig, 5,5 fráköst og 5,9 stoðsendingar að meðaltali í leik.
Á fyrsta tímabili sínu í NBA-deildinni var LeBron James með 20,9 stig, 5,5 fráköst og 5,9 stoðsendingar að meðaltali í leik. getty/G Fiume

Sjaldgæft körfuboltaspjald með LeBron James seldist í gær á 1,8 milljónir Bandaríkjadollara, eða 250 milljónir íslenskra króna.

Spjaldið verðmæta er frá nýliðatímabili LeBrons í NBA, 2003-04. Hann lék þá með Cleveland Cavaliers.

Spjaldið var aðeins gefið út í 23 eintökum sem var treyjunúmer LeBrons hjá Cleveland og er áritað af honum. Það er í nær fullkomnu ásigkomulagi.

Uppboð á spjaldinu hófst í gær og á endanum seldist það fyrir 250 milljónir íslenskra króna. Þetta er hæsta upphæð sem greidd hefur verið fyrir slíkt spjald. 

Gamla metið var sett þegar safnari keypti hafnaboltaspjald með Mike Trout fyrir 130 milljónir króna.

Cleveland valdi LeBron með fyrsta valrétti í nýliðavalinu 2003. Hann var valinn nýliði ársins tímabilið 2003-04.

LeBron lék með Cleveland til 2010 en sneri aftur til heimaborgarinnar fjórum árum síðar. Hann leiddi Cleveland svo til síns fyrsta NBA-meistaratitils 2016. LeBron varð einnig tvisvar sinnum meistari með Miami Heat.

Undanfarin tvö tímabil hefur LeBron leikið með Los Angeles Lakers. Keppni í NBA hefst á ný í Disney World í Flórída 30. júlí.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×