Innlent

Dagsverkið að bjarga lömbum og dæla úr kjöllurum

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Mikið hefur mætt á björgunarsveitunum á Vestfjörðum í dag vegna vatnsveðursins. 
Mikið hefur mætt á björgunarsveitunum á Vestfjörðum í dag vegna vatnsveðursins.  Vísir/Hafþór

Björgunarsveitir á Vestfjörðum höfðu í nógu að snúast í dag vegna hvassviðris og úrhellisrigningar. Appelsínugul veðurviðvörun gildir á Vestfjörðum til miðnættis en þá tekur gul viðvörun við. Gular viðvaranir verða í gildi á öllu Norðurlandi fram á morgun.

Björgunarsveitir hafa sinnt fjölmörgum útköllum á Vestfjörðum, flest hafa þau verið á Suðureyri og í Bolungarvík. Bátar hafa losnað frá byggju, flætt hefur inn á vegi og inn í kjallara. Þá hafa aurskriður hafa fallið og nokkuð verið um grjóthrun.

Þegar fréttastofa náði tali af Val Sæþóri Valgeirssyni, formanni björgunarsveitar á Suðureyri, var hann staddur í verkefni við höfnina á Flateyri.

„Hér er bara allt á kafi og það er úrhellisrigning ennþá á svæðinu,“ sagði Valur sem bætti við að verkefnin í dag hafi verið mýmörg og enn væri mikið um útköll.

Vísir/Hafþór

„Fyrsta verkefnið okkar var í morgun að bjarga lömbum og rollum sem voru innlyksa. Þær komust hvorki lönd né strönd. Síðan þurftum við að dæla upp úr kjöllurum og aðstoða fólk við það.“

Veðurfræðingur sem fréttastofa ræddi við sagði að vatnsveður sem þetta væri alls ekki algengt á Vestfjörðum.

Vísir/Hafþór

„Þetta er ekki algengt, bara alls ekki. Mér skilst að sólarhringsúrkoma hér fyrir vestan hafi verið að slaga í á annað hundrað millimetra, sem er ansi mikið.“

Valur biðlar til íbúa að fylgjast með viðvörunum og veðurspám og að fara að öllu með gát.

„Mjög gott er að menn fylgist með hlíðum og öðru og hreinsi frá niðurföllum, ef menn hafa einhver tök á því, þannig að tjón verði ekki meira en orðið er.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×