Skoðun

Ertu í sótt­kví? Ekki gleyma að hreyfa þig!

Unnur Pétursdóttir skrifar

Í þjóðfélaginu eru nú um mundir fordæmalausar aðstæður, þar sem hundruðir manna hafa verið settar í sóttkví og fjölmargir hvattir til að vera sem mest heima við af ýmsum ástæðum. Í slíkum aðstæðum, þegar hefðbundin dagskrá fer út um gluggann, er hætta á að dagleg hreyfing gleymist.

Sjúkraþjálfarar vilja minna landsmenn á að það er hægt að gera margt þótt fólk komist ekki í líkamsræktina sína. Rétt að minna á, að samkvæmt leiðbeiningum Landlæknis er fólki í sóttkví heimilt að fara í gönguferðir á fáförnum stöðum, ef þess er gætt að vera aldrei í minna en 2m fjarlægð frá öðru fólki. Eins er heimilt að fara um akandi á eigin bíl, svo fyrir bíleigendur er hægt að komast á útivistarsvæði þótt það sé ekki í göngufæri við heimili. Útivera er hressandi og bætir bæði andlega og líkamlega heilsu og líðan, svo endilega drífið ykkur út en gætið að fyrrnefndum atriðum.

Einnig er hægt að gera margt heima við. Á Rás 1 er morgunleikfimi kl 9.45 dag hvern, sem tilvalið er að fylgja og hægt er að hlusta á marga þætti á vef Ríkisútvarpsins.

Á heimasíðu Embættis Landlæknis má finna leiðbeiningar um hreyfingu og á heimasíðu Félags sjúkraþjálfara eru tenglar á nokkur myndbönd sem sýna góða hreyfingu sem hægt er að stunda heima við og krefst ekki neins sem ekki er til á hverju heimili.

Hvatningarorð sjúkraþjálfara til allra landsmanna þessa dagana eru: Ekki gleyma að hreyfa þig!

Höfundur er formaður Félags sjúkraþjálfara.




Skoðun

Skoðun

Drasl

Hafþór Reynisson skrifar

Sjá meira


×