Innlent

Byrjuðu að greiða út styrki í morgun og eru enn að

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunnar, hefur haft í nógu að snúast eins og aðrir starfsmenn stofnunarinnar síðustu daga.
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunnar, hefur haft í nógu að snúast eins og aðrir starfsmenn stofnunarinnar síðustu daga. vísir

Vinnumálastofnun byrjaði í dag að greiða út styrki vegna hinnar svokölluðu hlutabótaleiðar, sem felur í sér minnkað starfshlutfall á móti atvinnuleysisbótum. Að sögn Unnar Sverrisdóttur, forstjóra Vinnumálastofnunnar, voru fyrstu greiðslurnar sendar út í morgun og var enn verið að greiða út styrki núna á fimmta tímanum.

Unnur segir jafnframt að nú séu næstum 47 þúsund einstaklingar skráðir atvinnulausir að hluta eða fullu. Þar af eru um 31 þúsund umsóknir um minnkað starfshlutfall, en fyrstu áætlanir stjórnvalda gerðu ráð fyrir að umsóknirnar yrðu um 20 þúsund talsins.

Í almenna atvinnuleysistryggingakerfinu eru svo um 15.700 einstaklingar sem er fjölgun um tæplega 6.000 frá 1. mars síðastliðnum. Heildarfjöldinn er því sem fyrr segir um 46.700.

Fólki sem kann að hafa frekari spurningar um hlutastarfagreiðslurnar, sem komið var á koppinn til þess að draga úr þörfinni á uppsögnum í yfirstandandi kórónuveirufaraldri, er bent á vefsíðu Vinnumálastofnunnar.


Tengdar fréttir

Tvöfalt fleiri umsóknir á einum mánuði en allt árið í fyrra

Vinnumálastofnun bárust um 32.000 umsóknir um greiðslur í mars, um tvöfalt fleiri en allt árið í fyrra. Forstjóri stofnunarinnar segist aldrei hafa horft upp á annað eins og biður fólk um að hafa skilning á miklu álagi sem er á starfsmönnum hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×