Lífið

Morð í jólapakkann

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Valgerður (t.v.) og Sesselja sendu frá sér Heilaspuna fyrir jólin 2009.
Valgerður (t.v.) og Sesselja sendu frá sér Heilaspuna fyrir jólin 2009. mynd/gva
Vinkonurnar Sesselja G. Vilhjálmsdóttir og Valgerður Halldórsdóttir hafa opnað vefsíðuna Morðgáta.is, en um er að ræða nýjan samkvæmisleik á íslensku.

Á vefsíðunni er hægt að kaupa morðgátu en þær eru hannaðar í kringum þriggja rétta matarboð, eins og segir á síðunni. Fyrir matarboðið er gestum tilkynnt hvaða hlutverk þeim ber að leika en aðeins einn er morðinginn. Markmið leiksins er að komast að því hver það er.

„Við fórum í svona morðgátumatarboð á ensku fyrir svona einu og hálfu ári síðan,“ segir Sesselja, en vinkonurnar hafa áður sent frá sér hið geysivinsæla spil Heilaspuna. „Þessi kvöldstund var það langskemmtilegasta sem við höfum gert þannig að við hugsuðum að þetta þyrfti að vera til á Íslandi.“

Tvær morðgátur eru í boði á síðunni enn sem komið er og nefnast þær Morð í góðæri og Nýársmorð. „Ég er sérstaklega hrifin af Morði í góðæri. Þarna fá Íslendingar loksins tækifæri til að leika útrásarvíking. Ég hugsa að það sé leyndur draumur margra að detta í þennan karakter einu sinni á ævinni.“

Að sögn Sesselju hafa vinir og vandamenn prófað morðgáturnar og bera þeim góða söguna. Vefsíðan opnaði hins vegar í dag og því er of snemmt að spá fyrir um viðtökurnar.

„En þetta er þrælskemmtilegt og oft eru það þeir sem mann síst grunar sem reynast vera góðir leikarar og drífa leikinn áfram.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.