Erlent

Bretar opna stærstu gjörgæslu heims tveimur vikum eftir að vinna hófst

Eiður Þór Árnason skrifar
Hermenn og verktakar unnu enn hörðum höndum að því að setja upp sjúkrarýmin í síðustu viku.
Hermenn og verktakar unnu enn hörðum höndum að því að setja upp sjúkrarýmin í síðustu viku. Vísir/EPA

Bretar munu í dag opna nýjan spítala sem er sérstaklega ætlaður til meðferðar á sjúklingum sem greinst hafa með kórónuveiruna.

Bráðabirgðaspítalinn sem er á bökkum Thamesánnar í Lundúnum ber nafnið NHS Nightingale. Hann mun búa yfir fjögur þúsund sjúkrarýmum og áttatíu gjörgæslurýmum í byggingu sem hýsti áður sýninga- og ráðstefnuhöllina ExCeL London.

sögn breska miðilsins Sky News telst nýi spítalinn þar með hafa stærstu gjörgæslu í heimi. Spítalinn verður vígður af Karli Bretaprins síðar í dag, einungis tveimur vikum eftir að vinna hófst við að útbúa hann.

Hermenn, trésmiðir og sjálfboðaliðar eru sagðir hafa unnið sleitulaust undanfarnar vikur til þess að tryggja að bráðabirgðaúrræðið verði tilbúið til notkunar á mettíma.

Karl Bretaprins, sem greindist með kórónuveiruna og lauk einangrun á dögunum, mun vígja spítalann í streymi frá heimili sínu í Birkhall í Skotlandi.

Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands, verður meðal þeirra sem verða viðstaddir athöfnina í eigin persónu. Hann hefur sömuleiðis nýlokið einangrun eftir að hafa greinst með veiruna.

Alls hafa rétt yfir 34 þúsund manns greinst með kórónuveiruna í Bretlandi samkvæmt talningu Johns Hopkins háskóla. 2.926 hafa þar nú látið lífið af völdum veirunnar.


Tengdar fréttir

Karl Bretaprins við góða heilsu

Karl Bretaprins segist hafa fengið væg einkenni kórónuveirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum en sé nú við góða heilsu.

Dauðsföllum fjölgar hratt í Bretlandi

Dauðsföllum vegna nýju kórónuveirunnar fjölgaði um 381 í Bretlandi á síðasta sólarhring. Það samsvarar 27 prósenta fjölgun þar sem heildarfjöldi látinna er nú 1.808.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×