Lærisveinar Dags Sigurðssonar í Füchse Berlin sáu aldrei til sólar er þeir sóttu Evrópumeistara Hamburg heim í þýsku úrvalsdeildinni í kvöld.
Heimamenn tóku völdin strax í upphafi og hreinlega keyrðu yfir Berlínarliðið. Ballinu var í raun lokið í hálfleik en þá leiddi Hamburg með tíu mörkum, 21-11.
Strákarnir hans Dags sýndu smá karakter í síðari hálfleik en náðu aldrei að ógna heimamönnum af neinni alvöru.
Lokatölur 39-32 fyrir Hamburg sem er í fjórða sæti deildarinnar en Berlin er í því fimmta.
Sveinar Dags fengu skell
