Viðskipti innlent

Telur stöðu gengislánamála óásættanlega

Heimir Már Pétursson skrifar
Ásta Sigrún Helgadóttir, umboðsmaður skuldara.
Ásta Sigrún Helgadóttir, umboðsmaður skuldara.
Umboðsmaður skuldara telur stöðu gengislánamála óásættanlega varðandi endurútreikning fjármálafyrirtækja á slíkum lánum.

Í samantekt umboðsmanns til  félags- og húsnæðismálaráðherra sem ráðherra óskaði eftir segir umboðsmaður stöðuna í gengislánamálum óásættanlega. Ráðherra kynnti samantektina á fundi ríkisstjórnar í gær og lagði fram tillögur um næstu skref stjórnvalda til að fylgja þessum málum eftir.

Umboðsmaður skuldara segir að þótt lánastofnanir virðist vera að endurreikna ólögmæt gengistryggð lán, virðist  enn ákveðin ágreiningsefni vera til staðar sem eigi eftir að leysa. Fjármálafyrirtækin og Drómi hafi dregið lappirnar í þessum málum og hafi sum þeirra jafnframt sett fram ákveðna fyrirvara gagnvart lántakendum við endurútreikninga sína.

Lagt er til að Fjármálaeftirlitið óski eftir upplýsingum um nákvæma stöðu endurútreikninga gengislána hjá fjármálafyrirtækjum og Dróma og leiti eftir atvikum skýringa á hvað tefji að þessum málum sé lokið gagnvart lántakendum.

Þá er lagt til að dómstólar fari nánar yfir þau mál sem varða gengislán og eru enn á ýmsum stigum hjá dómstólum og að Neytendastofa kanni nánar hvort þeir fyrirvarar sem einstök fjármálafyrirtæki hafa sett við endurútreikninga sína gagnvart lántakendum standist að þeirra mati lög.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×