Viðskipti innlent

Reikna með 84 prósenta heimtum

Slitastjórn gamla banka Kaupþings í Bretlandi reiknar með að greiða allt að 84 prósent upp í kröfur. Fréttablaðið/Björgvin Guðmundsson
Slitastjórn gamla banka Kaupþings í Bretlandi reiknar með að greiða allt að 84 prósent upp í kröfur. Fréttablaðið/Björgvin Guðmundsson
Slitastjórn Kaupthing Singer & Fried­lander (KSF), banka Kaupþings í Bretlandi, hefur greitt kröfuhöfum 45 prósent af kröfum í bú bankans. Reiknað er með að endurheimtur muni nema á milli 78 og 84 prósentum. Þetta kemur fram í skýrslu til kröfuhafa frá lögfræðingum Ernst & Young í Bretlandi sem stýra slitum á KSF.

Breska fjármálaeftirlitið tók yfir stjórn KSF við fall Kaupþings 8. október 2008. Fram kemur í skýrslu til kröfuhafa að 953 kröfum hafi verið lýst í búið upp á 5,4 milljarða punda, jafnvirði 982 milljarða íslenskra króna.

Fram kemur í skýrslunni að heildarútlán KSF námu þremur milljörðum punda, jafnvirði tæpra 546 milljarða króna. Þar af höfðu 43 prósent skilað sér til baka í lok september. Fjórðungur lánanna var til kaupa auðugra einstaklinga á einkaþotum, þyrlum og lúxusskútum. Lán til einkaþotukaupa hafa verið greidd til baka að fullu en verið er að fá viðskiptavini bankans til að endurfjármagna hin lánin til að greiða bankanum.

Þá kemur fram í skýrslunni að nokkur tilboð hafi verið lögð fram í lánasafn KSF. Tilboðin hafi verið undir væntingum og þeim því ekki verið tekið. Búið er að skipta lánasafninu upp með það fyrir augum að auka verðgildi þess.- jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×