Viðskipti innlent

Tveir hæstaréttardómarar lýstu yfir vanhæfi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þeir Viðar Már Matthíasson og Markús Sigurbjörnsson lýstu sig vanhæfa til að dæma í málinu.
Þeir Viðar Már Matthíasson og Markús Sigurbjörnsson lýstu sig vanhæfa til að dæma í málinu.
Tveir hæstaréttardómarar lýstu sig vanhæfa til þess að dæma í vaxtamáli Sigurðar Hreins Sigurðarssonar og Mariu Elviru Mendez Pinedo gegn Frjálsa fjárfestingabankanum í gær. Þetta staðfestir Þorsteinn Jónsson, skrifstofustjóri Hæstaréttar, í skriflegu svari til Vísis.

Um er að ræða Markús Sigurbjörnsson forseta Hæstaréttar og Viðar Má Matthíasson. Samkvæmt heimildum Vísis mun ástæða þessa að þeir lýstu sig vanhæfa vera tengsl þeirra við Mariu Elviru, en hún er prófessor við lagadeild Háskóla Íslands. Viðar Már starfaði með henni við lagadeildina áður en hann var skipaður í Hæstarétt og Björg Thorarensen eiginkona Markúsar starfar með henni við deildina.

Að minnsta kosti tveir dómarar til viðbótar störfuðu með Mariu Elviru, en það eru þeir Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason. Sá fyrrnefndi var prófessor við deildina áður en hann var skipaður dómari en sá síðarnefndi er dósent. Þeir sáu ekki ástæðu til að lýsa yfir vanhæfi og dæmdu því í málinu.

Umræddur dómur er einn sá umtalaðasti sem Hæstiréttur hefur dæmt í um margra mánaða skeið, en með honum er meðal annars kveðð á um að lög sem Alþingi setti í árslok 2010 brytu gegn stjórnarskrá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×