Viðskipti innlent

Segir gæsluvarðhald hafa skilað árangri

Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari segir það hafa skipt máli og skilað árangri að fá sakborninga tengda hruninu úrskurðaða í gæsluvarðhald. Formaður lögfræðingafélags Íslands, Kristín Edwald, segist hafa efasemdir um að þessi úrræði séu nauðsynleg.

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, var meðal þeirra sem fluttu erindi á hátíðarmálþingi Orators, félags laganema við Háskóla Íslands, í lögbergi í dag. Þar voru efnahagsbrot til umræðu og gangur þeirra í réttarkerfinu, en auk Ólafs Þórs fluttu þau Jóhannes Karl Sveinsson hrl. og Kristín Edwald hrl. erindi.

Ólafur Þór sagði nú vera um 100 mál er tengdust hruninu til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara, og að þeim færi hratt fjölgandi. Mikinn tíma myndi taka að ljúka þessum rannsóknum, en embættið hefur nú þegar hætt rannsókn á 80 málum þar sem ekki var talið um að lögbrot hefði verið að ræða.

Kristín Edwald sagði í erindi sínu að hún hefði efasemdir um nauðsyn þess að úrskurða menn í gæsluvarðhald mörgum árum eftir að meint brot hafi verið framin, og þá taldi hún að símhlerunum hefði hugsanlega verið beitt óhóflega. Hún tók þó fram að hún efaðist ekki um að embætti sérstaks saksóknara væri að reyna að vanda til verka.

Ólafur Þór sagði að gæsluvarðhaldsúrskurðirnir hefðu þjónað tilgangi og verið mikilvægir fyrir rannsóknir málanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×