Lífið

Erla og Tryggvi: Opnuðu listagallerí í Los Angeles Opna Íslendingum leið inn á bandarískan listmarkað

Kynna íslenska list í Bandaríkjunum Arkitektahjónin Erla Dögg Ingjaldsdóttir og Tryggvi Þorsteinsson opnuðu Gallery Skart í Santa Monica þar sem þau reka stofuna Minarc.
Kynna íslenska list í Bandaríkjunum Arkitektahjónin Erla Dögg Ingjaldsdóttir og Tryggvi Þorsteinsson opnuðu Gallery Skart í Santa Monica þar sem þau reka stofuna Minarc.

„Taugarnar liggja til Íslands, það fer ekki á milli mála,“ segir Erla Dögg Ingjaldsdóttir arkitekt, en hún og eiginmaður hennar Tryggvi Þorsteinsson arkitekt hafa opnað listagallerí í Santa Monica í Kaliforníu. Galleríið er í sama húsi og arkitektastofan Minarc sem þau hjón hafa rekið síðustu níu ár, en Gallery Skart sýnir fyrst og fremst íslenska list og er markmiðið að opna íslenskum listamönnum leið inn á bandarískan markað.

„Við vorum heima í lok september 2008 og sáum hörmungarnar skella á. Við erum með skrifstofuna okkar á hjarta Santa Monica, nálægt aðalmiðstöð menninga og lista í Kaliforníu, og þar sem við vorum með aukarými fyrir framan skrifstofuna í sama húsi fannst okkur tilvalið að nota okkar öfl til að koma íslenskum listamönnum á framfæri. Þetta er okkar framtak til að hjálpa,“ útskýrir Erla Dögg, spurð um tilurð gallerísins. „Skart-búðin er tileinkuð íslenskum iðnaði og er hugmyndin að hægt sé að nýta galleríið til kynningar á Íslandi, hvort sem er á list eða til annars brúks,“ bætir hún við.

Gallery Skart hefur vakið mikla athygli í Los Angeles, en meðal annars hefur verið fjallað um það í LA Times og á útvarpsstöðinni KCRW. Nýlega hélt Bjarni Sigurbjörnsson myndlistarsýningu í galleríinu, en nú stendur yfir ljósmyndasýning GroupLA 2008 þar sem 25 ljósmyndarar sýna stafrænar myndir á flatskjá sem þeir tóku í sínu nánasta umhverfi í Los Angeles árið 2008. „Fram undan er sýning Friðgeirs Helgasonar ljósmyndara og seinna í sumar verður sýning sem kallast Fairy Tales þar sem hugmyndin er að listamenn taki þátt í vinnustofu með börnum sem minna mega sín,“ segir Erla Dögg, en áhugasömum er bent á heimasíðu gallerísins galleryskart.com.

alma@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.