Handbolti

Segir Hauk betri en Óli Stef, Aron og Kristján voru á hans aldri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Haukur er marka- og stoðsendingahæstur í Olís-deild karla á tímabilinu.
Haukur er marka- og stoðsendingahæstur í Olís-deild karla á tímabilinu. vísir/daníel

Guðjón Guðmundsson, íþróttafréttamaður á Stöð 2, segist ekki hafa séð betri 18 ára handboltamann á Íslandi en Hauk Þrastarson.

Gaupi hefur fylgst með handboltanum í marga áratugi, var lengi liðsstjóri karlalandsliðsins og hefur starfað sem íþróttafréttamaður í aldarfjórðung. Fáir hafa því betri yfirsýn yfir handboltann en hann.

„Haukur Þrastarson er sá besti sem ég hef séð hér heima 18 ára. Betri en Geir, Óli, Axel, Alfreð, Aron, Kristján og allir hinir á hans aldri. Ekki fleira. Eina,“ skrifaði Gaupi á Twitter í gær, eftir leik Selfoss og Vals.



Selfyssingar töpuðu, 31-33, en Haukur átti frábæran leik. Hann skoraði níu mörk og gaf sjö stoðsendingar þrátt fyrir að vera tekinn úr umferð hluta leiksins.

Að mati Gaupa stendur Haukur framar Geir Hallsteinssyni, Ólafi Stefánssyni, Axel Axelssyni, Alfreð Gíslasyni, Aroni Pálmarssyni, Kristjáni Arasyni og öllum öðrum íslenskum handboltamönnum þegar þeir voru á hans aldri.

Haukur er á sínu þriðja tímabili sem fastamaður hjá Selfossi. Hann varð Íslandsmeistari með liðinu á síðasta tímabili og hefur verið valinn besti ungi leikmaður Olís-deildarinnar tvö ár í röð.

Haukur er bæði marka- og stoðsendingahæsti leikmaður Olís-deildarinnar á tímabilinu. Hann hefur skorað 109 mörk og gefið 80 stoðsendingar í 14 leikjum.

Eftir tímabilið heldur Haukur til Kielce. Hann hefur skrifað undir þriggja ára samning við pólska stórlilið.

Haukur lék sinn fyrsta A-landsleik aðeins 16 ára og lék tvo leiki á HM í Þýskalandi og Danmörku í janúar. Hann er í 19 manna æfingahópi Íslands fyrir EM 2020.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×