Bíó og sjónvarp

Kafað í nýjustu Star Wars stikluna

Samúel Karl Ólason skrifar
Það er útlit fyrir stærðarinnar geimorrustu í Rise of Skywalker.
Það er útlit fyrir stærðarinnar geimorrustu í Rise of Skywalker.
Það er ansi margt sem virðist koma fram í nýjustu Star Wars stiklunni fyrir níundu mynd Skywalker-sögunnar. Hér að neðan verður farið yfir það helsta sem kemur fram og reynum við að greina það oggulítið. Rise of Skywalker verður lengsta myndin af öllum níu myndunum og er hún 155 mínútur.

Með því helsta sem fram kemur er að Palpatine keisari er snúinn aftur. Hann virðist ekki vera svokallaður „Force-ghost“ heldur virðist hann vera lifandi. Eins og hann hafi lifað það af þegar Darth Vader kastaði honum ofan í stærðarinnar holu í Return of the Jedi.

Það fyrsta sem gerist í stiklunni er að Rey er á spretti í gegnum frumskóg og virðist sem hún sé að halda þjálfun sinni áfram. Seinna í stiklunni sést Rey faðma Leiu Organa, sem hin látna Carrie Fisher lék, og það er líklegast á sömu plánetunni.

Rey að æfa sig í frumskógi.
Leia bjó yfir mættinum eins og bróðir sinn Luke, sem virðist líka snúa aftur að einhverju leyti, og því er hún ekki slæmur kostur til að þjálfa Rey betur. Í nánast sömu senu sjáum við Rey klífa rústir geimskips, eins og hún hefur gert mikið af áður. Í fyrstu datt mér í hug að það gæti verið til marks um að plánetan sem hún er á sé Endor, þar sem seinna Helstirnið var eyðilagt í Return of the Jedi. Það er samt hæpið, því þetta virðist frumskógur með mun hlýrra andrúmslofti en Endor.

Seinna í stiklunni má sjá fleiri úr uppreisninni á sömu plánetu. Líklegast þykir mér að hún sé ný.

Því næst stingur Finn upp kollinum. Hann er að horfa í gegnum sjónauka og það er nákvæmlega ekkert merkilegt við þann hluta stiklunnar. Við heyrum hann þó segja: „Mátturinn sameinaði okkur.“

Uppreisnarmenn virðast skipuleggja árás.
Í næsta atriði má sjá hóp uppreisnarmanna þar sem þeir virðast vera að skipuleggja einhverskonar árás. Í hópnum má sjá C-3PO, Lando Calrissian og Poe en yfir því má heyra Poe segja: „Við erum ekki ein, gott fólk mun berjast ef við leiðum þau“.

Flestir uppreisnarmennirnir, eða nánast allir, virtust deyja í síðustu mynd, The Last Jedi, en bækur sem hafa verið gefnar út á milli TLJ og ROS sýna að Leia hefur lagt mikið á sig til að byggja uppreisnina upp á milli mynda.

Einhverjir vilja meina að á milli C-3PO og Lando megi sjá Aftab, son Ackbar „It‘s a trap“ aðmíráls. Hann skaut upp kollinum í teiknimyndasögu sem gefin var út í aðdraganda útgáfu kvikmyndarinnar. Hann fær bláan hring.

Rose Tico, úr Last Jedi, sést í oggustund skömmu síðar en í því augnabliki er það mest áhugaverða fyrir aftan hana. Þar má sjá þau Dominic Monaghan, úr Lord of the Rings, og Billie Lourd, dóttur Carrie Fisher.

Rey mætir Kylo Ren.
„Fólk er alltaf að segja að þau þekki mig. Það þekkir mig enginn,“ segir Rey því næst og sjáum við hana standa á fljótandi braki seinna Helstirnisins.

„Ég þekki þig,“ svarar „emo“ Kylo Ren um hæl og mætir hann Rey á áðurnefndu braki. Rey virðist reið og Kylo virðist sorgmæddur en bæði eru með geislasverð sín á lofti og virðist stefna í smá slag þeirra á milli. Sá slagur er svo staðfestur skömmu seinna.

Hásæti Palpatine keisara.
Næst sjáum við hásæti Palpatine og heyrum hann segja: „Lengi hef ég beðið og nú komið þið saman og það markar endalok ykkar,“ mjög lauslega þýtt. Aðeins meira um það síðar, því síðustu atriði stiklunnar snúa einnig að Palpatine.

Stór floti uppreisnarinnar.
Það er útlit fyrir stærðarinnar orrustu við plánetuna þar sem brak Helstirnisins er fljótandi þar sem við sjáum helling af geimskipum uppreisnarmanna og Stjörnuspilla.

C3P0 virðist undirbúa sig fyrir dauðann.
Við sjáum nýja litla leikfanga-geimveru fikta í kollinum á C3PO og Poe spyrja vélmennið hvað hann sé að gera. Hann svarar um hæl og segist vera að horfa á vini sína í síðasta sinn. Það er óvíst hvað það markar. Annað hvort eru þau að fara að gera eitthvað hættulegt, sem er svo sem ekki ólíklegt, en það gæti líka tengst því sem leikfanga-geimveran er að gera í kollinum á vélmenninu.

Leikfangið heitir víst Babu Frik og hann getur forritað hvaða vélmenni sem er.R2D2 og Chewie virðast næst vera brjálæðislega ánægðir með það að C3PO sé mögulega að fara að „deyja“. Þeir eru allavega að fagna einhverju.

C3PO er samt ekki að fara að deyja, held ég. Disney birti nefnilega einhvers konar stiklu í ágúst þar sem sjá má vélmennið með rauð augu. Hann er að undirbúa sig fyrir eitthvað, sem tengist því sem leikfangið er að gera við hann. Miðað við rauðu augun er kannski verið að gera hann vondann.

Sjá einnig: Stórar senur í nýju myndbroti úr næstu Stjörnustríðsmynd

Á myndinni hér að ofan sjáum við nýja persónu við hlið Poe sem heitir Zorri Bliss og er leikin af Keri Russel. Það er voðalega lítið vitað um hana, annað en að hún er vinur Poe.

Rey og Kylo Ren slást í hásætisherbergi Palpatine.
Því gest gerist ansi margt ansi hratt í stiklunni. Chewie, Poe og Finn drepa slatta af hermönnum. Rey og Leia faðmast. Hið krúttlega vélmenni BB-8 virðist drepa enn fleiri menn í einhverskonar eftirför, þar sem hetjurnar eru á flótta. Lando og Chewie fagna um borð í geimskipi. Annað hvort um borð í Millenial Falcon eða um borð í Y-Fighter sem við sjáum rétt þar á eftir skjóta niður minnst tvær TIE-Fighter.

Yfir þessu heyrum við rödd Luke Skywalker: „Að takast á við ótta eru örlög Jedi-riddara. Þín örlög,“ segir Jedi-riddarinn sem reyndi að drepa litla frænda sinn af ótta við að hann væri snúast að myrku hliðinni.

Enn sjáum við þau Rey og Kylo Ren í eða á seinna Helstirninu. Að þessu sinni eru þau stödd í rústum hásætisherbergis Palpatine og virðast þau vera að slást þar, eins og Darth Vader og Luke Skywalker gerðu á árum áður. Svo sjáum við örstutt skot af Rey og Kylo Ren stúta styttu af Darth Vader eða einhvers konar standi fyrir grímu hans í sameiningu.

Það hefur vakið athygli að í því atriði sést Rey halda á rýting í annarri hendinni. Það virðist enginn þó hafa hugmynd um hvort það merki eitthvað.

Inn á milli þessara atriða sjáum við einnig nokkrar af hetjum sögunnar ríða einhvers konar hestum til orrustu en sú orrusta á sér stað á stærðarinnar Stjörnuspilli (Star Destroyer). Þessi mynd verður augljóslega mikið sjónarspil.

Þá komum við að svolitlu merkilegu. Í lok stiklunnar stendur Rey andspænis manni sem virðist svo sannarlega vera Palpatine sjálfur og þar að auki virðist hann ekki vera svokallaður „máttar-draugur“ eins og við vitum að eru til í söguheimi Star Wars. Palpatine virðist sitja í hásæti og bíða eftir Rey.

Hann er allavega hátt uppi og mögulega eru einhverjar snúrur tengdar við hann. Þá virðist eins og hann sé á hreyfingu. Mynd af atriðinu má sjá hér að neðan.

Undir myndefninu heyrum við keisarann hlæja og svo rödd Luke: „Mátturinn verður með þér“ og Leia bætir við: „Ávallt“. Rey virðist svo mæta keisaranum ein, með geislasverð sitt á lofti.

Áætlun keisarans

Fyrri stiklur myndarinnar höfðu gefið í skyn að Palpatine myndi snúa aftur en þessi lætur líta út fyrir að hann hafi skipulagt allt sem hafi gerst. Að nú sé áætlun hans á lokastigunum. Það er líka áhugavert með tilliti til þess að svo virðist sem að keisarinn hafi falið flota af Stjörnuspillum undir yfirborð plánetu sem er ísi lögð. Plánetu þessari bregður nokkrum sinnum fyrir í stiklunni.

Þegar Rey mætir keisaranum virðist hún standa á klaka og er það væntanlega á sömu plánetunni.

Til að taka saman, þá er Palpatine mættur aftur og hann virðist stjórna stærðarinnar flota. Rey og Kylo Ren eru óvinir, stundum, og uppreisnin er enn á lífi. Þá stundar Disney enn sölu leikfanga.

Eitt samt, sem er eiginlega óþolandi, er að stiklan fjallar ekkert um það sem við fengum að sjá í sumar. Þá var Rey sýnd í Sith-kufli og með tvöfalt rautt geislasverð, eins og Darth Maul var með á sínum tíma. Við fengum ekkert að sjá um það.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.