Viðskipti innlent

Ballarin greiddi 50 milljónir fyrir WOW eignirnar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Michele Ballarin, stjórnarformaður US Aerospace Associates LLC, greiddi 50 milljónir króna fyrir eignirnar sem hún keypti úr þrotabúi WOW air. Þeirra á meðal eru fjólubláu búningarnir, margvíslegar rekstrarvörur, varahlutir, bókunartækni og handbækur. Þetta hefur Vísir fengið staðfest.

Þorsteinn Einarsson, annar skiptastjóra WOW air, vildi ekki tjá sig um upphæðina þegar Vísir heyrði í honum í dag. Hann staðfesti þó að Ballarin væri búin að standa við sinn hluta kaupsamningsins fyrir eignirnar úr þrotabúinu. Ballarin greindi sjálf frá því á blaðamannafundi í upphafi mánaðarins að búið væri að tryggja 85 milljónir bandaríkjadala, um 10 milljarða króna, til rekstursins.

Alls bárust 5964 kröfur í þrotabú WOW air fyrir lok kröfulýsingarfrests þann 3. ágúst síðastliðinn. Kröfurnar námu alls rúmlega 138 milljörðum króna. Ekki var tekið tillit til almennra krafna vegna þess hversu háar forgangskröfurnar voru, eins og launakröfur frá starfsmönnum flugfélagsins.

Vefsíðan fljótlega í loftið

Unnið er að því að standsetja vefsíðu hins nýja WOW air þannig að hægt verði að bóka flug með hinu endurreista flugfélagi, sem stefnir enn á jómfrúarflug í næsta mánuði. Ballarin segir sjálf í samtali við Washington Post að prófanir á vefsíðunni hafi gengið áfallalaust fyrir sig. Því sé ekki loku fyrir það skotið að vefsíðan verði komin í gagnið í lok vikunnar.

Nýja WOW air hefur ekki enn orðið sér úti um flugrekstrarleyfi en Ballarin segir að fyrst verði sótt um leyfi í Bandaríkjum en síðan á Íslandi þegar fram líða stundir. Flugfélagið verði staðsett á Dulles-alþjóðaflugvellinum í Washington með aðstöðu á flugvellinum í Keflavík og skrifstofu í Reykjavík.

Talsmenn Isavia og Dulles-flugvallar segja WOW air þó ekki hafa orðið sér úti um lendingartíma fyrir jómfrúarflugið, sem tilkynnt hefur verið að verði milli Keflavíkur og Washington. Af þeim sökum, auk annarra, vilja greinendur sem Washington Post ræðir við stíga varlega til jarðar þegar endurreista flugfélagið er annars vegar.

Flugmálasérfræðingurinn Robert Mann, aðspurður um hvort neytendur geti treyst nýja WOW air, segir óþarft að ana að neinu. „Bíðið eftir að það hefur verið endurreist og ákveðið ykkur svo. Það liggur ekkert á.“


Tengdar fréttir


Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
EIM
2,91
21
299.001
SKEL
2,42
10
16.966
HAGA
1,63
35
359.242
EIK
0,93
15
350.514

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
KVIKA
-3,48
60
559.397
ICESEA
-2,92
13
53.318
SIMINN
-2,73
20
361.506
VIS
-2,25
28
427.197
ARION
-2,15
87
1.048.495
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.