Handbolti

Sigursteinn: Ekki leiðinlegra að taka bikar með sér heim

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigursteinn tók við FH í sumar af Halldóri Sigfússyni.
Sigursteinn tók við FH í sumar af Halldóri Sigfússyni. vísir/baldur
„Það er frábært að koma hingað og vinna og ekki leiðinlegra að taka bikar með sér heim,“ sagði sigurreifur Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, í samtali við Vísi eftir sigurinn á Selfossi, 33-35, í Meistarakeppni HSÍ í kvöld.

FH-ingar voru komnir í erfiða stöðu, tveimur mörkum undir þegar skammt var eftir. En þeir sýndu styrk og tryggðu sér framlengingu sem þeir unnu svo.

„Ég er mjög ánægður með karakterinn í liðinu. Leikmennirnir gáfust aldrei upp og það var til fyrirmyndar. Við gerðum fullt af mistökum en héldum haus og héldum áfram,“ sagði Sigursteinn. En hvað réði úrslitum í framlengingunni?

„Aftur, karakterinn og viljinn til að vinna. Svo átti Phil [Döhler] nokkrar góðar vörslur sem héldu okkur inni í leiknum. Þetta var frábærlega gert.“

Einar Rafn Eiðsson fór hamförum í kvöld og skoraði 14 mörk. Sigursteinn var að vonum ánægður með hann.

„Ég held að hann sé aðeins sáttari með þetta sjálfur,“ sagði Sigursteinn og hló. „En að sjálfsögðu er ég mjög ánægður með hann.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×