Viðskipti innlent

Aðstandendur WAB air ekki af baki dottnir

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sveinn Ingi Steinþórsson, einn stofnenda WAB air.
Sveinn Ingi Steinþórsson, einn stofnenda WAB air. Mynd/Stöð 2
Einn stofnenda WAB air, íslensks lággjaldaflugfélags sem hópur fjárfesta freistar þess nú að koma á fót, segir aðstandendur félagsins munu halda sínu striki. Kaup Michele Roosevelt Edwards, eða Michele Balarin eins og hún er jafnan kölluð, á eignum þrotabús WOW air hafi ekki áhrif þar á.

Ballarin tilkynnti á blaðamannafundi á Hótel Sögu í dag að jómfrúarflug hins nýja WOW air yrði í október. WOW hafi þegar tryggt sér tvær flugvélar í reksturinn og þá muni félagið einnig einbeita sér í auknum mæli að vöruflutningi. Félagið verður með bandarískt flugrekstrarleyfi og skrifstofur beggja vegna Atlantshafsins. 

Sjá einnig: Svona var blaðamannafundur Ballarin

Sveinn Ingi Steinþórsson einn stofnenda WAB air segir félagið ekki láta neinn bilbug á sér finna þrátt fyrir endurreisn WOW, sem yrði að öllum líkindum öflugur samkeppnisaðili WAB.

„Við höldum okkar striki,“ segir Sveinn.

Hann segir starfsfólk WAB air enn vinna að því að fá flugrekstrarleyfi en félagið sótti um slíkt leyfi til Samgöngustofu í byrjun sumars. Að öðru leyti vill Sveinn ekki tjá sig um rekstur WAB air eða endurreisn WOW. Hann segir þó að frekari fregna af WAB megi vænta bráðlega.

WAB air hóf starfsemi í nýju skrifstofuhúsnæði í Hafnarfirði í byrjun ágúst. Um tíu starfsmenn mættu til vinnu fyrsta daginn.

Hópur fjárfesta, í samfloti við írska fjárfestingasjóðinn Avianta Capital, stendur að stofnun WAB air. Í fjárfestahópnum, auk Sveins, eru Arnar Már Magnússon, fyrrverandi framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs WOW air, Bogi Guðmundsson, lögmaður hjá Atlantik Legal Services og Þóroddur Ari Þóroddsson, sem hefur starfað sem ráðgjafi í flugvélaviðskiptum í Lundúnum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×