Viðskipti innlent

CCEP eignast Einstök á Íslandi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Einstök hefur meðal annars framleitt sérstakan jólabjór.
Einstök hefur meðal annars framleitt sérstakan jólabjór. Fréttablaðið/Daníel
Samkeppniseftirlitið gerir ekki athugasemd við það að CCEP, Coca Cola European Partners Íslandi ehf., eignist vörumerkið Einstök á Íslandi af bandaríska fyrirtækinu Einstök Beer Company L.P.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá eftirlitinu þar sem segir að tildrög viðskiptanna séu þau að CCP hafi frá upphafi framleitt bjór undir vörumerkinu Einstök fyrir Einstök Beer Company L.P. Þann bjór hafi síðarnefnda fyrirtækið síðan selt fyrir eigin reikning, aðallega í Bandaríkjunum.

Samhliða hafi CCEP þó einnig haft dreifingarsamning um Einstök bjór fyrir íslenskan markað. Með kaupunum muni staða CCEP breytast frá því að vera dreifingaraðili bjórs á Íslandi, undir vörumerkinu Einstök, yfir í að verða eigandi þess vörumerkis á Íslandi.

Samkeppniseftirlitið tók málið til skoðinar eftir að félögin óskuðu eftir leiðbeiningu um mögulega tilkynningarskyldu vegna viðskiptanna. Er það mat eftirlitsins að ekki verði séð af gögnum málsins að samruninn leiði til þess að markaðsráðandi staða verði til eða styrkist eða að samruninn leiði til þess að samkeppni raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti,

Á grundvelli þess telur Samkeppniseftirlitið því ekki ástæðu til að aðhafast frekar í málinu.

CCEP gekk áður undir nafninu Vífilfell og er átöppunar- og söluaðili ýmissa drykkjarvara á Íslandi, þar með talið Coca-Cola.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×