Golf

Thomas fór á kostum og er kominn með sex högga forystu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Thomas var sjóðheitur í dag.
Thomas var sjóðheitur í dag. vísir/getty
Bandaríkjamaðurinn Justin Thomas er með sex högga forystu fyrir lokahringinn á BMW Championship mótinu í golfi. Þetta er næstsíðasta mótið í úrslitakeppninni um FedEx bikarinn.

Thomas lék frábært golf og lék hringinn á ellefu höggum undir pari. Thomas gaf tóninn með því að fá fimm fugla á fyrstu fimm holunum. Hann fékk alls átta fugla, tvo erni og einn skolla.



Thomas er samtals á 21 höggi undir pari, sex höggum á undan löndum sínum, Tony Finau og Patrick Cantlay, sem eru enn jafnir í 2. sætinu. Þeir léku báðir á fjórum höggum undir pari í dag.

Slóvakinn Rory Sabbatini er í 4. sæti á samtals 14 höggum undir pari. Hann lék á fimm höggum undir pari í dag.

Jon Rahm frá Spáni stökk upp um tíu sæti, úr því fimmtánda og í það fimmta. Hann lék á sex höggum undir pari í dag og er samtals á 13 höggum undir pari.

Eftir frábæra spilamennsku í gær náði Hideki Matsuyama sér ekki á strik í dag. Hann lék á einu höggi yfir pari og er kominn niður í 9. sætið eftir að hafa verið með forystu eftir annan hringinn.

Tiger Woods lék vel í dag, á fimm höggum undir pari, og fór upp um 17 sæti. Hann er í 31. sæti á samtals sjö höggum undir pari.

Bein útsending frá fjórða og síðasta hring BMW Championship hefst á Stöð 2 Golf klukkan 16:00 á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×