Viðskipti innlent

XO á Hringbraut kveður

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gunnar Örn Jónsson er einn eigenda XO.
Gunnar Örn Jónsson er einn eigenda XO. Fréttablaðið/Ernir
Forsvarsmenn XO hafa lokað veitingastað sínum við Hringbraut í JL-húsinu í vesturbænum í Reykjavík. Ástæðan er sögð breytingar á rekstri í húsnæðinu. Veitingastaðurinn hóf rekstur sumarið 2015 og í framhaldinu var opnað útibú í Smáralind.

Áfram verður rekstur í Smáralind, á ört stækkandi veitingastað eins og segir í tilkynningunni á Facebook-síðu XO.

„XO þakkar vesturbæingum og öðrum viðskiptavinum sínum kærlega fyrir viðskiptin og sérstaklega fyrir frábæru móttökurnar sem XO fékk á sínum fyrstu starfsárum sem lögðu grunninn að velgengni fyrirtækisins. Þúsund þakkir fyrir okkur. Vonandi opnar XO annars staðar á næstu mánuðum!“

Á heimasíðu fyrirtækisins segir að XO sé hollur skyndibitastaður sem framreiði mat í fusion stíl þar sem asísk og evrópsk matreiðsla renna saman.

„Maturinn er eldaður frá grunni og XO kappkostar við að gera bragðið af matnum einstakt. XO styðst eingöngu við topp hráefni og er hvorki hvítur sykur né hvítt hveiti notað við matreiðsluna.“










Fleiri fréttir

Sjá meira


×