Viðskipti innlent

Íslendingar fengu fimm prósent af útboði Marels

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Um fimmtán prósenta hlutur var seldur í útboði Marels. Fréttablaðið/EPA
Um fimmtán prósenta hlutur var seldur í útboði Marels. Fréttablaðið/EPA
Íslenskir fjárfestar fengu aðeins úthlutað í kringum fimm prósent af þeim 47 milljarða króna hlut sem seldur var í nýafstöðnu hlutafjárútboði Marels, samkvæmt heimildum Markaðarins.

Í útboðinu, sem efnt var til samhliða skráningu Marels í Euronext-kauphöllina í Amsterdam, voru 90,9 milljónir nýrra hluta í félaginu seldar á genginu 3,7 evrur á hlut, jafnvirði um samanlagt 47 milljarða króna, en komi til nýtingar valréttar á 9,1 milljón hluta til viðbótar mun heildarfjárhæð útboðsins hækka í tæplega 52 milljarða króna.

Margföld umframeftirspurn var í útboðinu, bæði frá fagfjárfestum og almennum fjárfestum, og lét Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, hafa eftir sér í tilkynningu að útboðið hefði dreifst vel til fjárfesta í Bretlandi, Bandaríkjunum, Íslandi, Hollandi og fleiri löndum.

Hlutabréfaverð Marels hefur hækkað um sjö prósent í Euronext-kauphöllinni, miðað við útboðsgengið, frá því að viðskipti hófust með bréfin á föstudag. Stóð gengið í 3,96 evrum á hlut þegar markaðir lokuðu í gær. Markaðsvirði Marels er í dag um 424 milljarðar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×