Umfjöllun: Selfoss - Haukar 35-25 | Selfoss Íslandsmeistari í fyrsta sinn

Arnar Helgi Magnússon skrifar
Selfyssingar fagna.
Selfyssingar fagna. vísir/vilhelm
Selfyssingar skráðu nafn sitt á spjöld sögunnar í kvöld þegar liðið varð Íslandsmeistari eftir sigur á Haukum í Hleðsluhöllinni á Selfossi. Lokatölur á Selfossi urðu 35-25 en Selfyssingar léku á alls oddi í leiknum.

 

Hleðsluhöllin var orðin troðfull þegar klukkutími var í leik og lætin og stemningin í húsinu var ólýsanleg. Stuðningsmannasveitir liðanna tókust á í stúkunni en fljótlega heyrðist aðeins öðru megin.

 

Haukar byrjuðu leikinn af krafti og náðu tveggja marka forskoti í upphafi leiks. Heimamenn voru ekki lengi að slökkva í Hafnfirðingum og tóku öll völdin á vellinum. Einbeitingin og krafturinn skein úr augum leikmanna Selfoss sem vissu upp á hár hvað var undir.

 

Þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik höfðu Selfyssingar náð þriggja marka forskoti, það mesta í leiknum hingað til. Gunnar Magnússon tók þá leikhlé og ætlaði væntanlega að endurskipuleggja leik sinna manna á einhvern hátt. Leikhléið breytti litlu og héldu Selfyssingar áfram að auka forskotið.

 

Atli Ævar Ingólfsson skoraði síðasta mark fyrri hálfleiksins á lokasekúndunum og Selfyssinga leiddu með fimm mörkum þegar þrjátíu mínútur voru liðnar af leiknum.  

 

Selfyssingar byrjuðu síðari hálfleikinn af sama krafti og gjörsamlega gengu yfir Haukana, bæði sóknar- og varnarlega. Fljótlega var munurinn orðinn níu mörk og síðan ellefu mörk.

 

Heimamenn gáfu ekkert eftir og sigldu að lokum 10 marka sigri heim og allt ætlaði um koll að keyra í Hleðsluhöllinni þegar lokaflautið gall.

 

Selfyssingar eru Íslandsmeistarar í fyrsta skipti eftir að hafa sigrað þetta úrslitaeinvígi gegn Haukum, 3-1. Til hamingju Selfoss!

 

Afhverju vann Selfoss?

Selfyssingar voru staðráðnir í því að þurfa ekki að mæta í Schenker-höllina í oddaleik á föstudag. Selfyssingar virtust vilja þennan sigur miklu, miklu meira en Haukarnir og það sést best á lokatölunum.

 

Hverjir stóðu upp úr?

Elvar Örn Jónsson stóð upp úr í sóknarleik Selfyssinga í dag, eins og svo oft áður. Þessi verðandi leikmaður Skjern skoraði ellefu mörk úr fimmtán tilraunum. Alexander Már Egan var einnig flottur með fimm mörk úr jafn mörgum skotum.

 

Sverrir Pálsson var gjörsamlega magnaður í vörn Selfyssinga í kvöld með tíu löglegar stöðvanir. Sverrir hefur verið frábær í þessu einvígi gegn Haukum.

 

Hvað gekk illa?

Haukunum gekk ekkert að finna lausnir á mögnuðum varnarleik Selfyssinga. Selfyssingar refsuðu Hafnfirðingum fyrir minnstu mistök.

 

Hvað gerist næst?

Patrekur Jóhannesson og Elvar Örn Jónsson náðu markmiði sínu, að kveðja Selfoss með titli. Íslandsmótinu í handknattleik er nú formlega lokið og það eru að sjálfsögðu Selfyssingar sem að standa uppi sem sigurvegarar. Til hamingju Selfoss!

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.