Viðskipti innlent

Tekjur 66°Norður jukust um 600 milljónir króna

Hörður Ægisson skrifar
Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri 66°Norður.
Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri 66°Norður.
Sjóklæðagerðin 66°Norður skilaði um 100 milljóna króna rekstrarhagnaði (EBITDA) á síðasta ári og dróst hagnaðurinn saman um liðlega 60 milljónir frá fyrra ári. Tekjur fyrirtækisins, sem rekur tíu verslanir hér á landi og tvær í Kaupmannahöfn, jukust hins vegar um rúmlega 600 milljónir á árinu og námu samtals 4,47 milljörðum króna.

Heildartap 66°Norður á árinu 2018 var um 488 milljónir króna og skýrist einkum af gengistapi vegna láns frá lúxemborgíska félaginu 66 North Holding Lux, sem á núna 99,99 prósent alls hlutafjár í 66°Norður, sem var breytt í hlutafé í desember síðastliðnum að fjárhæð um 3,2 milljarðar króna.

Hlutafjáraukningin kom til í kjölfar kaupa bandarísks fjárfestingarsjóðs á tæplega helmingshlut í félaginu, eins og greint var frá í Markaðinum í júlí í fyrra, í því skyni að tryggja fjármögnun á áframhaldandi uppbyggingu 66°Norður erlendis. Hjónin Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri fyrirtækisins, og Bjarney Harðardóttir stjórnarformaður fara með meirihluta í félaginu en þau komu fyrst inn í hluthafahópinn árið 2011.

Allar skuldir fyrirtækisins við innlendar lánastofnanir, samtals um 2,24 milljarðar króna, voru greiddar upp í fyrra og í árslok 2018 voru einu langtímaskuldir fyrirtækisins lán í evrum að jafnvirði um 157 milljónir króna. Heildareignir 66°Norður nema um 3,94 milljörðum króna og er eiginfjárhlutfall félagsins rúmlega 73 prósent borið saman við aðeins fjögur prósent árið áður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×