Viðskipti innlent

Skúli sagður hafa fundað með eigendum KEA-hótela

Birgir Olgeirsson skrifar
Skúli Mogensen.
Skúli Mogensen. vísir/vilhelm
Skúli Mogensen, fyrrverandi forstjóri WOW air, er sagður hafa fundað með fulltrúum eigenda KEA-hótela í vikunni um stofnun nýs flugfélags. Greint var frá þessu í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins.

Flugfélagið WOW air féll 28. mars síðastliðinn en viku síðar voru færðar fregnir af því að Skúli Mogensen væri kominn aftur á stjá með áætlun um að hefja rekstur nýs flugfélags ásamt lykilstarfsmönnum WOW. Var stefnan sett á að safna 40 milljónum dollara í hlutafé, eða tæpum fimm milljörðum króna, til að það yrði að veruleika.

Björgólfur Thor Björgólfsson, Liv Bergþórsdóttir forstjóri Nova og fyrrverandi stjórnarformaður WOW, ásamt Hugh Short árið 2016 þegar PT Capital keypti í Nova.
Félagið K acquisition á KEA-hótelin en bandaríska fjárfestingafélagið PT Capital á helmingshlut í því félagi. PT Capital á einnig í fjarskiptafyrirtækinu NOVA en RÚV greinir frá því að forstjóri PT Capital, Hugh Short, hafi fyrir tveimur vikum tjáð sig um fall WOW á Linkedin þar sem hann spurði sig að því hvers vegna íslensk yfirvöld komi ekki WOW til aðstoðar? Þannig hefði mátt afstýra því höggi sem efnahagurinn varð fyrir.

Samkvæmt áætlun Skúla og félaga um nýja flugfélagið er ætlunin að sinna fyrstu vikurnar leiguverkefnum fyrir stórt evrópskt flugfélag, kaupa helstu eignir þrotabús WOW air, þar á meðal vörumerkið, ná samkomulagi við leigusala um rekstur á fimm flugvélum og ná að sækja nægt fjármagn til að hefja starfsemi. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×