Erlent

Kallar eftir því að Trump verði kærður fyrir embættisbrot

Samúel Karl Ólason skrifar
Elizabeth Warren, öldungadeildarþingkona sem boðið hefur sig fram í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningar í Bandaríkjunum á næsta ári.
Elizabeth Warren, öldungadeildarþingkona sem boðið hefur sig fram í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningar í Bandaríkjunum á næsta ári. AP/Rick Bowmer
Elizabeth Warren, öldungadeildarþingkona sem boðið hefur sig fram í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningar í Bandaríkjunum á næsta ári, segir að fulltrúadeild þingsins ætti að hefja ferlið til að mögulega kæra Donald Trump, forseta, fyrir embættisbrot. Hún segir ákvörðun sína byggja á skýrslu Robert Mueller.

Warren er fyrst forsetaframbjóðenda Demókrataflokksins til að kalla eftir því að þetta ferli verði hafið.

Í röð tísta sem Warren birti í kvöld segir hún skýrsluna sýna fram á að óvinveitt ríki hefði beitt sér í forsetakosningunum 2016 með því markmiði að hjálpa Trump og hann hafi tekið því fagnandi. Hún sýni einnig fram á að eftir að hann var kosinn, beitti Trump sér gegn rannsókninni á árás hins óvinveitta ríkis, Rússlands.

Hún segir Mueller hafa sagt að málið væri nú í höndum þingsins.

Enn fremur segir Warren að það að hunsa ítrekaðar tilraunir forseta til að hindra framgang rannsóknar sem snúi að honum sjálfum muni valda Bandaríkjunum langvarandi skaða. Það myndi sýna fram á að núverandi forseti og komandi forsetar geti misnotað vald þeirra óáreittir.

Þá segir hún það þingmenn beggja flokka eiga að líta fram hjá pólitík og sinna stjórnarskrárbundinni skyldu þeirra.

NBC News hefur eftir talsmanni Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildarinnar, að þingið þurfi að taka eitt skref í einu. Fyrsta skrefið sé að fá skýrsluna og rannsóknargögn teymis Mueller og fá Mueller á nefndarfundi þar sem þingmenn geti spurt hann spurninga.


Tengdar fréttir

Skýrslan lýsir tilraunum Trump til að skaða rannsóknina

Þrátt fyrir að ekki sé mælt með ákæru í skýrslu Roberts Mueller lýsir hann tilraunum Trump forseta til að leggja stein í götu rannsóknarinnar, þar á meðal með því að vilja reka Mueller sjálfan.

Blaðafulltrúi Hvíta hússins laug um Comey

Sarah Huckabee Sanders viðurkenndi að fullyrðingar hennar um að fyrrverandi forstjóri FBI hafi misst traust starfsmanna sinna hafi verið úr lausu lofti gripnar.

Trump ekki lengur sáttur við skýrslu Mueller

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur varið síðustu vikum í að staðhæfa að skýrsla Robert Mueller, sérstaks rannsakanda Dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna, hreinsi hann af sök. Hann virðist hættur því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×