Viðskipti innlent

Komist upp með grímulaus lögbrot

Ari Brynjólfsson skrifar
Höfuðstöðvarnar í Kaupmannahöfn.
Höfuðstöðvarnar í Kaupmannahöfn. Fréttablaðið
Kredia, Hraðpeningar, Smálán, 1909 og Múla eru nú öll skráð í Danmörku. Vefsíður þeirra eru með danskt lén þrátt fyrir að vera á íslensku. Lénin eru í eigu tékkneska fjárfestingarfyrirtækisins Verrier Group sem er til húsa í blokk í Prag.

Starfsemi smálánafyrirtækjanna er nú í eigu Ecommerce 2020. Hér á landi sér lögfræðistofan Almenn innheimta ehf. um að innheimta vanskilakröfur fyrir hönd danska félagsins. Eigandi Ecommerce 2020 heitir Ondrej Šmakal og er frá Tékklandi. Hann er á fertugsaldri og rekur fjárfestingarfyrirtækið KPS í heimalandi sínu ásamt því að vera forstjóri Kredia Group. Hann kom á fund starfshópsins í fyrra og hefur einnig komið á fund hjá Umboðsmanni skuldara ásamt íslenskum lögmanni. Šmakal vildi lítið ræða starfsemi Ecommerce 2020, Kredia Group og tengsl þess við Ísland. Þeir sem hafa rætt við hann segja að svo virðist sem hann sé virkur stjórnandi en ekki leppur fyrir aðra.

Starfsemi beint að Íslendingum

Erfiðlega hefur gengið að fá svör við því hvort Kredia Group bjóði eingöngu upp á þjónustu fyrir Íslendinga, samkvæmt vefsíðu fyrirtækisins er það með starfsemi í Lundúnum, Prag og Kaupmannahöfn. Viðmælendur Fréttablaðsins sem ræddu við Šmakal segja að hann hafi í raun viðurkennt þegar á hann var gengið að smálánafyrirtækin í eigu Kredia Group láni eingöngu til Íslendinga. Það sést þegar vefsíður smálánafyrirtækjanna eru skoðaðar. Fyrirtækið sé skráð í Danmörku til að komast fram hjá íslenskum lögum. Danir íhuga nú að setja sams konar bann og Íslendingar á starfsemi smálánafyrirtækja, yrði þá auðvelt fyrir Kredia Group að færa starfsemina til annars lands og halda áfram. Það sé afstaða smálánafyrirtækjanna að þar sem þau séu skráð í Danmörku þá gildi um þau dönsk lög þrátt fyrir að starfseminni og markaðssetningunni, sem fer mest fram í gengum smáskilaboð og á samskiptamiðlum, sé alfarið beint að Íslendingum.

Brynhildur Pétursdóttirmynd/sigtryggur ari

Linkind stjórnvalda

Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna, segir samtökin furða sig á linkind stjórnvalda gagnvart þessum fyrirtækjum. Þau brjóti lög grímulaust og komist upp með það. „Hugsanlega hefði verið gengið harðar fram ef þessir ósvífnu viðskiptahættir bitnuðu á góðborgurum þessa lands.“

 

Varhugaverð lán til skuldara

Almenn innheimta ehf. sér um að innheimta vanskilakröfur fyrir hönd Ecommerce 2020. Enn sem komið er hafa engar kröfur ratað inn á borð dómstóla. Það hefur komið fyrir að vanskil lána séu skráð á vanskilaskrá Creditinfo en þau afskráð ef lántaki mótmælir því. Það tíðkast hjá Almennri innheimtu að bjóða skuldurum lán til að greiða upp smálán. Slíkt lán færi eftir íslenskum lögum og bæri vexti sem væru innan lagalegra marka. Viðmælendur Fréttablaðsins segja það vekja upp spurningar um hvort með því sé verið að breyta ólögmætu smáláni í lögmætt íslenskt lán, þá væri komið í veg fyrir að smálánin rötuðu til dómstóla.

Gísli Kr. Björnsson lögmaður

Enginn segist eftirlitsaðili

Starfshópurinn lagði til að eftirlitsaðili með félaginu kannaði sérstaklega hvort fyrirtæki sem innheimta smálán veiti skuldurum rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir. Þar sem Almenn innheimta ehf. er undir stjórn lögmanns lýtur félagið eftirliti Lögmannafélags Íslands, LÍ. Þar á bæ könnuðust menn ekki við að vera með félagið undir eftirliti. Vísaði LÍ á Fjármálaeftirlitið, sem vísaði til baka á LÍ.„Bara viðskiptavinir“

Gísli Kr. Björnsson lögmaður var skráður eigandi Almennrar innheimtu ehf. í ársreikningi félagsins frá því í fyrra. „Ég er í stjórn félagsins,“ segir Gísli þegar hann er spurður hvort hann sé eigandi Almennrar innheimtu ehf.

Gísli, sem er fyrrverandi formaður Varðar, vildi lítið segja um starfsemi félagsins. Hann vildi ekki svara hvort Almenn innheimta ehf. gerði annað en að innheimta fyrir smálánafyrirtæki. „Þeir eru bara viðskiptavinir.“

Félagið var með 123 milljónir í tekjur af innheimtu árið 2016 og 239 milljónir árið 2017. Hagnaðurinn er lítill þar sem flestar tekjurnar fara í „annan rekstrarkostnað“. Langstærstur hluti þess fer í aðkeypta þjónustu og rekstur tölvukerfis. Lögheimilið er á Suðurgötu 10 á Siglufirði, sem er sama heimilisfang og Smálán ehf. var með þegar það félag fór í þrot árið 2016. Aðspurður hvort einhver tengsl séu á milli félaganna, sagði Gísli: „Það getur vel verið að það hafi verið einhvern tímann, ég þekki það ekki.“ Bað hann svo blaðamann sérstaklega um að hafa broskall á eftir því sem hann sagði.

Hver er eftirlitsaðili? Lögmannafélagið vísar á Fjármálaeftirlitið sem vísar til baka á Lögmannafélagið.

Hver er hvað?

Verrier Group

Fjárfestingarfyrirtæki skráð í Tékklandi. Það félag á lénin bæði á Íslandi og í Danmörku fyrir smálánafyrirtækin. Höfuðstöðvar þess eru í blokk í Prag.

Ecommerce 2020

Eigandi smálánafyrirtækjanna. Skráð til húsa í Havnegade 39 í Kaupmannahöfn, starfsemi þess er óheft í Danmörku ólíkt Íslandi. Skráður eigandi þess er Tékkinn Ondlej Smakal.

Almenn innheimta ehf.

Lögfræðistofa sem sér um að innheimta fyrir smálánafyrirtækin hér á landi. Félagið er til húsa á Siglufirði, í sama húsi og Smálán ehf. var til húsa áður en það fór í þrot. Gísli Kr. Björnsson lögmaður er stjórnarmaður.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
ORIGO
5,15
11
38.105
HAGA
2,41
10
263.415
REGINN
1,58
7
459.461
SJOVA
1,4
11
121.916
LEQ
1,33
2
518

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
EIM
-1,94
10
182.919
SKEL
-1,92
1
306
MAREL
-1,12
17
251.703
SIMINN
-0,78
4
68.241
ARION
-0,19
29
918.872
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.