Viðskipti innlent

Ræða við kröfuhafa um að breyta skuldum í hlutafé

Samúel Karl Ólason og Vésteinn Örn Pétursson skrifa
Skúli Mogensen, forstjóri WOW air.
Skúli Mogensen, forstjóri WOW air. Vísir/Vilhelm
Forsvarsmenn WOW air eiga nú í viðræðum við kröfuhafa með því markmiði að endurfjármagna félagið með því að breyta skuldum í hlutafé. Viðræðum um aðkomu Icelandair að rekstri félagsins var slitið í dag. Bogi Nils, forstjóri Icelandair, sagði í kjölfar viðræðuslitanna að rekstur og fjárhagsstaða WOW air væri með þeim hætti að forsvarmenn Icelandair treystu sér ekki til að halda áfram með málið.

Í stuttri yfirlýsingu frá WOW air segir að kröfuhafar eiga nú í viðræðum um endurfjármögnun félagsins. Þar er meðal annars verið að ræða að breyta skuldum félagsins í hlutafé og hvernig fjármagna eigi félagið til lengri tíma.

Einnig segir að frekari upplýsingar verði ekki veittar fyrr en á morgun.

Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að Artica Finance vinni að því að safna 30 milljónum Bandaríkjadala, eða um 3,6 milljörðum króna, til reksturs félagsins.

Þá segir í fréttinni að Skúli sé reiðubúinn að láta af hendi „umtalsverðan hlut í WOW,“ gegn því að hægt verði að halda rekstri félagsins áfram. Skuldabréfaeigendur eigi þá að breyta kröfum sínum í hlutafé og leggja félaginu til nýtt fjármagn. Isavia eigi þá að afskrifa hluta skuldar WOW vegna lendingargjalda.

Heimildir Fréttablaðsins herma þá að fulltrúar WOW muni funda með Samgöngustofu í kvöld þar sem flugrekstrarleyfi WOW verður tekið fyrir.


Tengdar fréttir

Hefur ekki trú á því að Icelandair kaupi WOW air

Jón Karl Ólafsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Isavia og fyrrverandi forstjóri Icelandair, hefur ekki trú á því að þær viðræður sem nú standa yfir á milli Icelandair og WOW air endi með því að Icelandair kaupi WOW air.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×