Erlent

Sýndi beint frá skot­á­rásinni á sam­fé­lags­miðlum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá vettvangi skammt frá annarri moskunni.
Frá vettvangi skammt frá annarri moskunni. vísir/epa
Einn árásarmannanna í Christchurch í Nýja-Sjálandi sýndi beint frá skotárásinni á moskurnar tvær á Facebook-síðu sinni.

Búið er að taka myndbandið niður og hefur lögreglan hvatt almenning til að dreifa því ekki. Maðurinn er einn fjögurra sem er í haldi lögreglu en hann er ástralskur ríkisborgari.

Að minnsta kosti 49  létust í skotárásinni sem var gerð um klukkan 13:40 að staðartíma eða klukkan 02:40 að íslenskum tíma. Þá eru 48 slasaðir, þar á meðal ung börn, samkvæmt upplýsingum frá spítala í Christchurch. Mike Bush, lögreglustjórinn í Christchurch, mun ávarpa fjölmiðla núna klukkan átta að íslenskum tíma.

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, lýsir árásinni sem hryðjuverki en hinir grunuðu eru taldir vera öfgahægrimenn.

Ástralinn sem er í haldi er sagður heita Brenton Tarrant. Hann er 28 ára. Tarrant setti 73 blaðsíðna yfirlýsingu á internetið áður en hann lét til skarar skríða í moskunum tveimur.



Ástralinn sem er í haldi er sagður heita Brenton Tarrant. Hann er 28 ára. Tarrant setti 73 blaðsíðna yfirlýsingu á internetið áður en hann lét til skarar skríða í moskunum tveimur.

Í yfirlýsingunni lýsir hann sjálfum sér sem venjulegum hvítum manni. Hann sé maður úr verkamannastétt sem hafi ákveðið að gera árás til að stemma stigu við straumi innflytjenda til Evrópulanda.

Tarrant segist vilja „sýna innrásarmönnum að okkar lönd verði aldrei þeirra lönd, okkar heimalönd eru okkar, og á meðan að hvíti maðurinn lifir enn, þá munu þeir aldrei sigra okkar lönd og þeir munu aldrei koma í stað okkar fólks.“

Mike Bush, lögreglustjórinn í Christchurch, mun ávarpa fjölmiðla núna klukkan átta að íslenskum tíma.





 Fréttin var uppfærð klukkan 08:10 með nýjum upplýsingum um fjölda látinna.

Kommentakerfinu við þessa frétt hefur verið lokað.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×