Handbolti

Seinni bylgjan: Fýlustrumpurinn hættur að taka frekjuhopp

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Einar Rafn Eiðsson.
Einar Rafn Eiðsson. Vísir/Bára
Menn geta misst stjórn á sér í handboltaleikjum en þá geta þeir hinir sömu líka bókað það að Seinni bylgjan mun taka þá fyrir.

Seinni bylgjan tók fyrir FH-inginn Einar Rafn Eiðsson og pirringskast hans í leiknum á móti Aftureldingu í þættinum í gær.

„Það var annar sem var brjálaður í þessum leik. Hvað kallaðir þú hann í Fram?,“ spurði Tómas Þór Þórðarson, umsjónarmaður Seinni bylgjunnar, Jóhann Gunnar Einarsson sem lék með Einari á sínum tíma.

„Hann var kallaður fýlustrumpurinn,“ svaraði Jóhann Gunnar og svo var farið yfir af hverju Einar Rafn var orðinn svona pirraður.

„Hann pirrast, lætur dómarana heyra það og öskrar í treyjuna sína. Keppnismaður mikill. Hérna er hann síðan að fara aðeins yfir málin með Antoni Gylfa Pálssyni dómara,“ sagði Tómas.

„Anton segir honum greinilega að róa sig aðeins. Vertu smíðastrumpur eða eitthvað,“ segir Tómas í léttum tón.

„Svo tryllist hann og þarna segir Anton Gylfi Pálsson við Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfara FH: Annaðhvort tekur þú þennan mann útaf eða ég sendi hann útaf í tvær mínútur. Halldór var ekki lengi að taka hann útaf,“ sagði Tómas.

Jóhann Gunnar vildi þó koma því að með Einar Rafn að hann væri búinn að bæta sig í einu í þessum fýluköstum sínum.

„Þegar hann var í Fram þá hoppaði hann alltaf svona jafnfætis og tók frekjuhopp. Hann er hættur því,“ sagði Jóhann Gunnar Einarsson.

Það má finna alla umfjöllunina um pirringskast Einars hér fyrir neðan.

Klippa: Seinni bylgjan: Fýlustrumpurinn hættur að taka frekjuhopp





Fleiri fréttir

Sjá meira


×