Sport

Hlynur gaf mikið eftir í lokin og endaði í 23. sæti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Andrésson.
Hlynur Andrésson. Mynd/FRÍ
Hlynur Andrésson varð í 23. sæti í undanrásum í 3000 metra hlaupi á EM innanhúss í Glasgow í Skotlandi í dag.

Hlynur kom í mark á 8:06.97 mínútum og var því nokkuð frá sínum besta tíma sem er rétt undir átta mínútum.

Hlynur var að gera ágæta hluti framan af í hlaupinu en gaf mikið eftir á lokahringnum þar sem hann greinilega „dó“ eins og oft er sagt um langhlaupara sem klára sig of snemma.

Hlynur hljóp í fyrri riðlinum og náði þar þrettánda besta tímanum. Tíu hlupu síðan hraðar en hann í seinni riðlinum.

Þjóðverjinn Sam Parsons var síðastur inn í úrslitin en hann kláraði á 7:55.60 mínútum. Finninn Topi Raitanen sem var í riðli Hlyns rétt missti af úrslitunum en hann hafði komið í mark á 7:55.71 mínútum.

Norska undrabarnið Jakob Ingebrigtsen náði besta tímanum en hann setti nýtt Evrópumet 19 ára og yngri með því að koma í mark á 7:51.20 mínútum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×