Viðskipti innlent

Margir forvitnir um Hatara-leður

Ari Brynjólfsson skrifar
Hataramenn leðurklæddir eftir sigurinn á laugardagskvöld.
Hataramenn leðurklæddir eftir sigurinn á laugardagskvöld. Mynd/RÚV
Verslanir sem selja búninga fyrir öskudaginn hafa fengið fyrirspurnir um búninga í ætt við þá sem hljómsveitin Hatari klæðist. Hljómsveitin, sem keppir fyrir Íslands hönd í Eurovision í maí næstkomandi, hefur vakið mikla athygli fyrir óhefðbundinn klæðnað sem einkennist af ólum, latexi og göddum.

„Við höfum alveg fengið fyrirspurnir,“ segir Einar Arnarson í Hókus Pókus á Laugaveginum. „Við erum alveg að selja út af þessu. Augnlinsur, gadda og dótarí. Það er alveg verið að spyrja.“

Valgerður María Gunnarsdóttir í Partýbúðinni í Faxafeni segir óskaplega lítið um Hatara-tengdar fyrirspurnir í aðdraganda öskudagsins. „En við erum alveg undir það búin. Við eigum alltaf eitthvað. Svartar og hvítar linsur, gaddaólar og svartar gasgrímur. Ég á líka ljóshærðar sítt-að-aftan hárkollur. Það er alltaf hægt að bjarga sér.“

Verslunin Adam og Eva, sem hefur líkast til hvað mesta reynslu í sölu á búningum í ætt við Hatara, kannast ekki við neina aukningu á fyrirspurnum á slíkum búningum. Þar á bæ er ekki gert ráð fyrir aukningu á búningasölu fyrir öskudaginn.

„Mér finnst það nú ólíklegt, þetta er svona fullorðinsbúð, við seljum ekki föt á börn þannig að við erum ekki mikið að höfða til þeirra,“ segir Eva í Adam og Evu.

„Það er þó gaman að sjá fjölbreytni í búningum og ef salaokkar eykst í kjölfarið þá fögnum við því.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×