Umfjöllun og viðtöl: Afturelding - Selfoss 28-29 │ Haukur hetjan í spennutrylli

Guðlaugur Valgeirsson skrifar
Patrekur
Patrekur vísir/daníel

Selfyssingar unnu góðan eins marks sigur á Aftureldingu í kvöld þegar liðin mættust í Varmá. Lokatölur 28-29 eftir að gestirnir höfðu leitt með 4 mörkum í hálfleik, 12-16.
 
Leikurinn var nokkuð jafn til að byrja með en í stöðunni 7-7 tóku Selfoss öll völd á vellinum og skoraði 6 mörk í röð. Afturelding náði þó að rétt sinn hlut í fyrri hálfleik en voru þó enn 4 mörkum undir í hálfleik.
 
Selfoss leiddi áfram með 5-6 mörkum þar til um 20 mínútur voru eftir þegar heimamenn tóku gott áhlaup á gestina. Þeir minnkuðu muninn niður í 1 mark þegar 10 mínútur voru eftir og það leit allt út fyrir spennandi lokakafla í leiknum.
 
Arnór Freyr Stefánsson markvörður heimamanna var frábær í markinu eftir að hann kom inn á og hjálpaði sínum mönnum að koma til baka í leiknum.
 
Þeir jöfnuðu loksins í stöðunni 27-27 þegar rétt rúmar 3 mínútur voru til leiksloka. En Selfyssingar eru ólseigir og Haukur Þrastarson sýndi enn og aftur hversu magnaður hann er þegar hann tryggði sínum mönnum sigurinn rétt fyrir leikslok. 
 
Frábær sigur hjá gestunum.
 
Af hverju vann Selfoss?
 
Þeir voru einfaldlega betri þegar allt var undir í kvöld. Afturelding klikkar víti undir lok leiksins og ná ekki góðri lokasókn sem endar með erfiðu skoti. Það hjálpar þeim einnig ekki að vera elta meirihluta leiksins.
 
Hverjir stóðu upp úr?
 
Fyrrnefndur Haukur var frábær í kvöld. Hann skoraði 10 mörk þar af 3 víti og dró vagninn fyrir sína menn. Atli Ævar Ingólfsson var öflugur á línunni og skilaði 6 mörkum úr 6 skotum. Markmennirnir skiluðu saman 17 boltum eða 38% markvörslu.
 
Hjá heimamönnum var Birkir Benediktsson öflugur með 6 mörk úr 9 skotum en þeirra besti maður var klárlega fyrrnefndur Arnór Freyr sem kom inn á um miðbik fyrri hálfleiks. Hann varði 15 skot og 1 víti eða um 50% markvörslu.
 
Hvað gekk illa?
 
Sóknarleikur Aftureldingar í fyrri hálfleik var alls ekki nógu góður og Elvar Ásgeirsson var þar fremstur. Hann byrjaði vel en eftir það var hann í basli og endaði meðal annars með 4 tapaða bolta. 
 
Hvað gerist næst?
 
Afturelding fær annan heimaleik í röð þegar þeir taka á móti Akureyri en þeir verða væntanlega í hefndarhug eftir vont tap á Akureyri í fyrri umferðinni.
 
Selfyssingar taka á móti ÍBV í hörkunágrannaslag á Selfossi.
 
 

Einar Andri: Áttum meira skilið en tap
Einar Andri Einarsson þjálfari Aftureldingar var hundsvekktur eftir tap sinna manna gegn Selfossi í kvöld.
 
Honum fannst sínir menn eiga meira skilið og var alls ekki sáttur með að tapa þessum leik.
 
Hann var hinsvegar sáttur með endurkomu sinna manna en þeir náðu að jafna metin eftir að hafa verið 6 mörkum undir á tímabili í síðari hálfleik.
 
„Við spiluðum frábærlega í seinni hálfleik og áttum meira skilið heldur en að tapa finnst mér.”
 
Það gekk mjög vel hjá Aftureldingu að spila 7 á móti 6 í sókn í seinni hálfleik og Einar segir að það sé mjög líklegt að þeir grípi í það oftar ef leikurinn býður upp á það.
 
Arnór Freyr Stefánsson byrjaði á bekknum en kom snemma inn á og var frábær í markinu. Einar sá ekki eftir því að hafa byrjað með hann á bekknum.
 
„Nei alls ekki. Arnór byrjaði bara að æfa á föstudaginn og Pálmar var klár en ég er ánægður hans framlag eftir að hann kom inn á. Hann kom okkur inn í leikinn og gerði mjög vel í dag.”
 
Hann sagði að lokum að frammistaðan í fyrri hálfleik hafi alls ekki verið nógu góð.
 
„Ég er ánægður með seinni hálfleikinn en sá fyrri var alls ekki nógu góður og við þurfum að laga það i næsta leik.”
 


Patrekur: Það er alltof gott að láta sig dreyma
Patrekur Jóhannesson þjálfari Selfoss var mjög ánægður með sína menn eftir góðan útisigur á Aftureldingu í kvöld.
 
„Ég er mjög ánægður með að ná í 2 stig. Ég er hrikalega ánægður hvernig við komum inn í leikinn. Við leystum allt 6 á móti 6 og áttum að vera meira yfir í hálfleik fannst mér.”
 
„Við lentum í smá veseni 7 á 6 og ég tek það á mig en við lögum það í þessari viku. Ég var mikið úti í janúar og við æfðum þetta ekki nóg í fríinu og við lögum þetta klárlega.”
 
Hann lagði upp með að spila upp á línuna og það gekk mjög vel í dag.
 
„Við lögðum upp með að spila inn á línuna. Við erum með mjög góða menn 1 á 1 og Nökkvi kom mjög vel inn í liðið hjá okkur en að auki erum við með góða menn sem geta skotið fyrir utan en á móti þessum háu mönnum Aftureldingar vildi ég spila þetta svona.”
 
Varðandi framtíðina og drauminn að kveðja liðið með titli sagði hann liðið vera bara að vinna áfram að bæta sig.
 
„Það er alltaf gott að dreyma mikið og láta sér líða vel en það er mikilvægt að halda þessari vinnu áfram sem við erum í. 2 góð stig í dag og strákarnir flottir.”
 
Það var lítið ryð í Hauki og Elvari en Patrekur sagði það skiljanlegt þar sem Elvar fékk fína hvíld eftir HM og Haukur spilaði ekki eins mikið og Elvar á HM og í góðu standi og gráðugur í að spila.
 
 

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.