Tveir sterkir leikmenn í Olís-deild karla meiddust í 2. umferðinni og staðan á þeim er misgóð.
Haukarnir hafa miklar áhyggjur af varnartröllinu Darra Aronssyni sem meiddist á hné í leiknum gegn KA. Það var engin snerting er hann féll þjáður í gólfið í KA-heimilinu.
Hann er að fara í segulómun í dag en staðan á honum er ekki góð enda getur hann ekki stigið í fótinn. Það lítur því út fyrir að hann verði frá í talsverðan tíma.
Stjörnumaðurinn Tandri Már Konráðsson snéri sig á ökkla snemma leiks gegn Aftureldingu og er nokkuð bólginn.
Í samtali við íþróttadeild sagðist Tandri búast við því að spila gegn Haukum um helgina en hversu mikið væri óljóst og yrði að ráðast á næstu dögum.
