Sýn hf. hefur sent Símanum hf. bréf með kröfu um greiðslu skaðabóta vegna þess tjóns sem fyrirtækið telur sig hafa orðið fyrir vegna þeirra aðgerða Símans sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur komist að niðurstöðu um að hafi falið í sér brot á fjölmiðlalögum.
Sjá einnig:Síminn braut fjölmiðlalög með því að takmarka dreifingu Sjónvarps Símans
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sýn hf. en þar segir að félagið krefjist bóta fyrir það tjón sem það telur sig hafa orðið fyrir á tímabilinu 15. október 2015 til 30. júní 2018, eða sem svarar til rúmlega 1,9 milljarða króna.
Einnig er krafist bóta fyrir það tjón sem félagið telur sig enn verða fyrir sem og fyrir það tjón sem Sýn telur að það eigi eftir að verða fyrir á tímabilinu frá því að Síminn „lætur af brotinu og þar til Sýn hefur unnið til baka þau viðskipti sem hafa tapast vegna brots Símans hf., en félagið telur fjárhæð þess ekki lægri en núvirði þess tjóns sem nú þegar er orðið,“ eisn og segir í tilkynningu.
Hefur Sýn gefið Símanum fimmtán daga frest til þess að láta af broti sínu og gera upp skaðabætur miðað við þær forsendu sem krafa fyrirtækisins miðar við.
„Sýn hf. hefur upplýst Símann hf. um að bregðist Síminn hf. ekki við til samræmis megi búast við að Sýn hf. höfði mál án frekari fyrirvara til heimtu bóta vegna tjónsins sem telst orðið 30. júní 2018 og áskilið sér allan rétt til höfðunar frekari mála vegna þess tjóns sem síðar kemur fram eða ekki telst enn ótímabært að meta. Reynist Sýn hf. nauðsynlegt að höfða mál til heimtu krafna sinna kemur að endingu í hlut dómstóla að dæma um þær,“ segir í tilkynningu Sýnar.
Vísir er í eigu Sýnar hf.
Sýn krefur Símann um að minnsta kosti 1,9 milljarða í skaðabætur

Tengdar fréttir

Kanna hvort að fyrirtækið eigi rétt á skaðabótum vegna lögbrots Símans
Sýn hf. hyggst kanna hvort að fyrirtækið eigi rétt á skaðabótum þar sem Síminn braut fjölmiðlalög með því að beina viðskiptum Sjónvarps Símans að dótturfélagi sínu, Mílu.

Síminn braut fjölmiðlalög með því að takmarka dreifingu Sjónvarps Símans
Póst- og fjarskiptastofnun sektaði Símann um níu milljónir króna en hámarkssekt fyrir brot af þessu tagi er tíu milljónir.

Síminn segir ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar vonbrigði
Síminn telur ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar um að fyrirtækið hafi gerst brotlegt við fjölmiðlalög vonbrigði, skaðlega fyrir samkeppni á markaði og að hún vinni gegn nýsköpun í íslenskri sjónvarpsframleiðslu.