Handbolti

Guðjón Valur tilnefndur sem leikmaður mánaðarins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðjón Valur skoraði grimmt í desember.
Guðjón Valur skoraði grimmt í desember. vísir/getty
Guðjón Valur Sigurðsson er einn fjögurra sem koma til greina sem leikmaður desember-mánaðar í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta.

Guðjón Valur skoraði 33 mörk í fjórum deildarleikjum með Rhein-Neckar Löwen í desember, eða 8,3 mörk að meðaltali í leik. Skotnýting hans var 77,4%.

„Guðjón Valur er ódrepandi. Hann er fyrirmynd fyrir kynslóðir af handboltamönnum og að sjálfsögðu fyrir yngri liðsfélaga sína hjá Löwen. Hann er mjög mikilvægur fyrir liðið,“ sagði markvörðurinn frægi, Andreas Thiel, í umsögn um Guðjón Val á heimasíðu þýsku deildarinnar.

Patrick Wiencek (Kiel), Casper Mortensen (Hannover-Burgdorf) og Christoffer Rambo (Minden) eru einnig tilnefndir sem leikmaður desember-mánaðar.

Guðjón Valur er í 17. sæti yfir markahæstu leikmenn þýsku deildarinnar þrátt fyrir að hafa aðeins spilað 15 leiki. Landsliðsfyrirliðinn hefur skorað 79 mörk, eða 5,3 mörk að meðaltali í leik. Skotnýting hans er 76,7%.

Guðjón Valur og félagar sitja á toppi þýsku deildarinnar með 32 stig, tveimur stigum á undan Füchse Berlin.

Guðjón Valur er nú með íslenska landsliðinu sem undirbýr sig fyrir EM í Króatíu.


Tengdar fréttir

Guðjón Valur: þetta eru skemmtilegustu leikirnir

Íslenska karlalandsliðið í handbolta er í erfiðum riðli á EM í Króatíu sem hefst í næsta mánuði. Strákarnir okkar lentu í riðli með heimaliðinu, Serbíu og Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×