Viðskipti innlent

Fékk ekki svör um ráðningu nýrra starfsmanna Kornsins

Sighvatur Jónsson skrifar
Bakarí Kornsins eru þrettán, eitt í Njarðvík og hin á höfuðborgarsvæðinu.
Bakarí Kornsins eru þrettán, eitt í Njarðvík og hin á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Jói K
Bakarí Kornsins hafa verið lokuð í morgun, samtals vinna um 90 manns hjá fyrirtækinu. Umsjónarmaður eins bakarísins segir að sig hafi grunað eitthvað um ástandið þar sem erfiðlega hafi gengið að fá svör um ráðningar nýrra starfsmanna.

Bakarískeðjan Kornið var stofnuð fyrir 36 árum. Í fyrra keypti fyrirtækið Investor rekstur Kornsins. Þremur bakaríum fyrirtækisins var lokað fyrir ári vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar.

DV greindi frá því í gær að Korninu að Fitjum í Reykjanesbæ hefði verið lokað. Fréttastofa hefur í morgun fengið ábendingar um fleiri bakarí Kornsins sem eru lokuð, meðal annars í Grafarholti og Árbæ.

Vantaði starfsfólk

Ingibjörg Ósk Jóhannesdóttir hefur haft umsjón með Korninu að Fitjum í Reykjanesbæ. Hún segir í samtali við fréttastofu að hún hafi fengið símtal í fyrrakvöld um lokun bakarísins. Ingibjörg hefur unnið í Korninu í fjóra mánuði, hún býst við að uppsagnarfrestur hennar sé því stuttur.

„Ég veit ekkert hvort það mun einhver annar kaupa þetta. En það er bara lokað. Það vantaði slatta af starfsfólki, það hlaut að vera að þau voru ekki að ráða inn.“

Auglýst eftir fólki nýlega

Sex manns vinna hjá Korninu í Reykjanesbæ en samtals starfa um 90 manns hjá fyrirtækinu. Ingibjörg auglýsti eftir starfsmönnum fyrir tíu dögum.

„Mig vantaði tvo starfsmenn og það átti að reyna að ráða þá sem fyrst. Ég reikna með að þau hefðu reddað því í janúar því ég var búin að redda desember. Mig grunaði eitthvað þar sem ég var ekki að fá svör,“ sagði Ingibjörg Ósk Jóhannesdóttir hjá Korninu í Reykjanesbæ.

Ekki hefur náðst í forsvarsmenn Kornsins í morgun.


Tengdar fréttir

Kornið lokar þremur bakaríum

Forsvarsmenn Bakarískeðjunnar Kornið hafa í hyggju að loka þremur útibúum fyrirtækisins á næstu mánuðum






Fleiri fréttir

Sjá meira


×