Handbolti

Patrekur missir aðalmarkvörðinn löngu áður en hann tekur til starfa

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Emil Nielsen er gíðarlegt efni.
Emil Nielsen er gíðarlegt efni. getty/Dave Winter
Patrekur Jóhannesson fær ekki tækifæri til að þjálfa danska markvörðinn Emil Nielsen á næsta ári hjá Danmerkurmeisturum Skjern því félagið er búið að selja hann til franska stórliðsins Nantes.

Þetta kemur fram á heimasíðu Skjern en þessi pattaralegi 21 árs gamli markvörður er vonarstjarna danska markvarðahersins í dag. Hann átti stóran þátt í því að gera Skjern að meisturum á síðustu leiktíð og þá hefur hann spilað vel í Meistaradeildinni vetur.

Nielsen var með samning við Skjern út tímabilið 2021 en Nantes virkjaði klásúlu í samningi hans og borgaði samning danska markvarðarins upp. Hann klárar tímabilið með Skjern en fer svo til Frakklands.

Patrekur þarf því að finna sér nýjan markvörð fyrir næsta vetur en Björgvin Páll Gústavsson, landsliðsmarkvörður Íslands, er annar markvörður Skjern í dag á eftir Nielsen. Patrekur getur því gert Björgvin að aðalmarkverði liðsins.

„Sem félag erum við ótrúleg stolt af af því að eitt besta lið Evrópu vill fá Emil en að því sögðu erum við öll rosalega pirruð því við héldum að hann myndi vera hjá okkur allavega eitt tímabil í viðbót. Emil er ótrúlegur markvörður með óendanlega hæfileika,“ segir Carsten Thygesen, formaður Skjern.

Nielsen kom frá Árósum fyrir síðustu leiktíð og sló í gegn á fyrsta ári með Skjern og nú tekur hann næsta skref á ferlinum er hann fer frá vestur-Jótlandi til Frakklands.

„Ég gæti skrifað 20 blaðsíður um hvað Skjern skiptir mig miklu máli. Það hafði trú á mér þegar að ég var langt niðri vegna veikinda minna,“ segir Nielsen sem hefur glímt við alvarleg veikindi. „Ég mun standa í þakkarskuld við Skjern að eilífu.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×