Handbolti

Tíðindi frá Akureyri: Sverre rekinn og Geir tekur við

Anton Ingi Leifsson skrifar
Geir að taka við Akureyri?
Geir að taka við Akureyri? vísir/ernir
Sverre Jakobsen hefur verið rekinn úr starfi sem þjálfari Akureyrar í Olís-deildar karla. Þetta fullyrðir Skapti Hallgrímsson, blaðamaður, í kvöld.

Skapti greinir frá þessu á Twitter-síðu sinni en þar skrifar hann að fundur standi yfir með leikmönnum liðsins þar sem þeim er greint frá tíðindunum.

Eftirmaður Sverre ku vera fundinn. Geir Sveinsson, sem þjálfaði landslið Íslands á árunum 2016 til 2018, er talinn taka við liðinu af Sverre.

Tíðindin eru ansi óvænt en Akureyri hefur verið á ágætis flugi upp á síðkastið. Liðið er komið upp úr fallsæti en þeir eru með átta stig í tíunda sætinu.

Uppfært klukkan 19.08: Finnur Víkingsson, gjaldkeri Akureyrar, sagði í samtali við Vísi nú rétt í þessu að hann gæti ekki staðfest fréttirnar né vísað sögunum á bug. Hann sagði að það væri verið að vinna í málunum. Hann staðfesti að fundur stæði yfir með leikmönnum liðsins.

Uppfært klukkan 19.59: Akureyri hefur nú staðfest á vef sínum að Sverre sé hættur. Þó er ekkert staðfest með Geir eins og Skapti greindi frá fyrr í kvöld en á vef Akureyrar stendur að leit að eftirmanni Sverre sé hafin. Yfirlýsinguna má sjá í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×