Handbolti

Norsku stelpurnar í fimmta sæti á EM eftir fjórða stórsigurinn í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Veronica Kristiansen.
Veronica Kristiansen. Vísir/EPA

Norska kvennalandsliðið í handbolta er ennþá eitt það besta í Evrópu en fór bara alltof seint af stað á EM í Frakklandi. Norsku stelpurnar tryggðu sér fimmta sætið á mótinu með níu marka sigri á Svíum í dag, 38-29.

Fimmta sætið er mikil vonbrigði fyrir Þóri Hergeirsson og stelpurnar hans en þetta er í fyrsta sinn síðan á EM 2000 sem norsku stelpurnar spila ekki um verðlaun. Þetta er líka slakasti árangur liðsins undir stjórn Þóris. Liðið endaði líka í fimmta sæti á HM í Serbíu 2015.

Veronica Kristiansen var markahæst í norska liðinu með 6 mörk úr 7 skotum, Linn Jörum Sulland skoraði 5 mörk og þær Stine Bredal Oftedal, Henny Reistad og Sanna Solberg voru allar með fjögur mörk.

Besti maður liðsins var aftur á móti tvíburasystir Sanna Solberg, markvörðurinn Silje Solberg, sem varði 18 skot eða 50% skota sem komu á hana í leiknum. Silje var líka valin besti maður vallarins af mótshöldurum.

Norska liðið fór stigalaust inn í milliriðilinn en vann þar alla þrjá leiki sína með ellefu mörkum að meðaltali. Norska liðinu vantaði aðeins eitt mark í viðbót til að komast í undanúrslitin á kostnað Rúmeníu.

Þórir Hergeirsson var í miklum vandræðum með liðið sitt í riðlinum þar sem þær norsku töpuðu tveimur af þremur leikjum og lágu meðal annars með átta mark mun á móti Rúmeníu. Útlitið var því svart fyrir keppni í milliriðlum og á endanum varð þessi slæma byrjun á mótinu norska liðinu að falli.

Norsku stelpurnar sýndu aftur á móti styrk sinn með því að vinna fjóra síðustu leiki sína á mótinu með samtals 42 mörkum eða 10,5 mörkum að meðaltali í leik.

Sænsku stelpunar hengu í þeim norsku framan af og náðu meðal annars að jafna metin í 10-10. Þá komu sjö norsk mörk í röð á aðeins sjö mínútum og norska liðið komið í 17-10. Noregur skoraði síðan alls 22 mörk í fyrri hálfleiknum og var átta mörkum yfir í hálfleik, 22-14.

Sigur norsku stelpnanna var aldrei í hættu í seinni hálfleiknum sem norska liðið vann þá bæði 16-15.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.