Körfubolti

Segist nú getað sannað það að hann hafi ekki drepið pabba Michael Jordan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Jordan með föður sínum James og með NBA-bikarinn í fangið eftir sigur Chicago Bulls árið 1991.
Michael Jordan með föður sínum James og með NBA-bikarinn í fangið eftir sigur Chicago Bulls árið 1991. Vísir/Getty
Dæmdur morðingi föður körfuboltagoðsagnarinnar Michael Jordan er enn að berjast fyrir sakleysi sínu 25 árum eftir morðið. Hann telur sig nú getað sannað sakleysi sitt.

Faðir Michael Jordan var skotinn til bana 23. júlí 1993 eða um mánuði eftir að sonurinn var NBA-meistari þriðja árið í röð. James Jordan fannst ekki fyrr en ellefu dögum síðar, í mýri í Suður-Karólínu.

Michael Jordan hætti í NBA-deildinni um haustið og snéri sér að hafnarbolta til minningar um föður sinn. Hann snéri aftur í körfuna vorið 1995 og vann þrjá NBA-titla til viðbótar.

Dæmdur morðingi James Jordan segist nú getað sannað það að hann hafi ekki skotið James Jordan til bana. Maðurinn viðurkennir að hafa hjálpað við að fela og færa líkið en heldur því staðfestlega fram að hann hafi ekki skotið James.

Líkið var svo illa farið að það þurfti tannlæknaskýrslur til að skera út um að þarna væri í raun James Jordan.

„Ég kom ekkert nálægt dauða þessa manns. Ég kom ekki á staðinn fyrr en hann var dáinn. Ég lít þannig á málið að ég kom bara í veg fyrir að hann fengi viðeigandi jarðaför,“ sagði maðurinn sem heitir Daniel Green.

Daniel Green var dæmdur sekur fyrir morðið árið 1996 og dómurinn var síðan staðfestur árið 1999. Daniel Green er 44 ára í dag en hann var aðeins átján ára gamall þegar morðið var framið.





Green heldur því fram að vinur hans, Larry Demery, hafi skotið James Jordan til bana eftir misheppnaða ránstilraun. Demery staðfesti aftur á móti fyrir dómara að það hafi verið Green sem skaut James. Báðir fengu þeir lífstíðardóma.

Samkvæmt nýju viðtali við Daniel Green þá telur sig vera í fyrsta sinn að fá sanngjarna málsferð þar sem dómarinn ætli að skoða öll sönnunargögn í málinu.

Fullt af gestum í grillveislu sem þeir félagar voru í hafa haldið því fram að Daniel Green hafi enn verið í veislunni á þeim tíma sem James Jordan var skotinn til bana. Green segist hafa verið upptekinn við að kyssa stelpu á sama tíma og þar sem hann var nýsloppinn úr fangelsi hafi aldrei komið til greina að missa af því tækifæri.





Green segir síðan að Demery hafi komið til baka nokkrum klukkutímum síðar og sagt honum frá því að hann hafi skotið James Jordan fyrir mistök þar sem hann hélt þar væri á ferðinni maður sem ætlaði að selja honum eiturlyf.

Það veit enginn hvað í raun gerðist þarna nema að James Jordan var skotin til bana þegar hann svaf í bílnum sínum við vegkantinn á þjóðvegi 95.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×