Handbolti

Enn einn stórleikur Ómars fyrir toppliðið

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ómar í leik með íslenska landsliðinu. Hann virðist funheitur sem eru góð tíðindi fyrir Ísland sem keppir á HM í janúar.
Ómar í leik með íslenska landsliðinu. Hann virðist funheitur sem eru góð tíðindi fyrir Ísland sem keppir á HM í janúar. vísir/ernir
GOG vann eins marks sigur á Skjern, 30-29, í Íslendingaslag í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta. Sigurmarkið kom á síðustu sekúndu leiksins.

Skjern var þremur mörkum yfir í hálfleik 17-14 en hægt og rólega komust gestirnir en þeir jöfnuðu fyrst metin í 27-27. Sigurmarkið skoraði svo Frederik Bo Andersen úr vítakasti með síðasta skoti leiksins.

Óðinn Þór Ríkharðsson komst ekki á blað í liði GOG en samkvæmt tölfræði dönsku úrvalsdeildarinnar skaut hann ekki að marki Skjern. GOG er í þriðja sæti deildarinnar.

Björgvin Páll Gústavsson náði ekki að verja eitt af þeim fjórum skotum sem hann fékk á sig í marki Skjern en Tandri Már Konráðsson var ekki í leikmannahópi Skjern sem er í sjöunda sætinu.

Vignir Svavarsson skoraði tvö mörk úr tveimur skotum fyrir TTH Holstebro sem vann fimm marka sigur á Skanderborg 29-24. Holstebro er í fjórða sætinu, stigi á eftir GOG.

Álaborg er áfram á toppi deildarinnar eftir þriggja marka sigur á SönderjyskE í öðrum Íslendingaslag. Munurinn varð að endingu þrjú mörk 30-27 eftir að staðan hafi verið 15-13, Álaborg í vil í hálfleik.

Ómar Ingi Magnússon hefur farið á kostum á tímabilinu og hann hélt uppteknum hætti í kvöld. Hann skoraði átta mörk og gaf fimm stoðsendingar en Janus Daði Smárason bætti við tveimur mörkum.

Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði tvö mörk úr sjö skotum fyrir SönderjyskE og gaf eina stoðsendingu en SönderjyskE er í fimmta sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×