Viðskipti innlent

Staða Póstsins tvísýn ef ekki fæst lán frá ríkissjóði

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Ingimundur Sigurpálsson forstjóri Íslandspósts.
Ingimundur Sigurpálsson forstjóri Íslandspósts. Vísir/Arnar Halldórsson
Forstjóri Íslandspósts vonar að fjárlaganefnd Alþingis sjái að sér og samþykki breytingartillögu við fjárlög sem heimilar ríkissjóði að veita Íslandspósti 1,5 milljarða króna lán.Íslandspóstur (Pósturinn) glímir nú við alvarlegan lausafjárvanda. Meirihluti fjárlaganefndar hætti í gær við breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið sem hefði heimilað ríkissjóði að lána Póstinum 1,5 milljarða króna. Þetta var gert meðal annars vegna efasemda um að Pósturinn gæti endurgreitt lánið.„Meirihluti fjárlaganefndar telur einfaldlega að áður en þessi heimild er veitt þá þurfi hugsanlega að setja einhver skilyrði. Að fyrir liggi hvernig og hvenær fyrirtækið telur sig verða gjaldfært og geta borgað þetta lán til baka. Ef þetta væri bara um tímabundinn eðlilegan lausafjárvanda að ræða þá hefði væntanlega viðskiptabanki félagsins séð um þetta og veitt þessa fyrirgreiðslu,“ segir Páll Magnússon sem situr í fjárlaganefnd fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Fyrir Alþingi liggur frumvarp til nýrrar heildarlöggjafar um póstþjónustu. Með því verður einkaréttur póstsins á almennum bréfum afnuminn.„Lausafjárvandinn felst í því að það eru ekki til peningar á ákveðnum tímapunkti til að standa fyrir greiðslu á reikningum. Þetta gerist fyrst og fremst vegna þess að fall í bréfamagni á þessu ári er miklu meira en áætlanir gerðu ráð fyrir. Það leiðir til tekjutaps upp á 350-400 milljónir,“ segir Ingimundur Sigurpálsson forstjóri Íslandspósts. Ingimundur vonar fjárlaganefnd þingsins sjái að sér og setji inn heimild fyrir láni til Póstsins.Hvað gerist ef það verður á niðurstaðan að veita ekki þessa heimild?

„Þá fer af stað hefðbundin atburðarás. Ég held að það sé ekki ástæða til að gera ráð fyrir slíku. Því að skyldur Póstsins eru býsna víðtækar.“Fer Pósturinn í þrot?

„Öll fyrirtæki sem geta ekki staðið við skuldbindingar sínar fara í þrot fyrr eða síðar. Reyndar er það skylda stjórnenda að vekja athygli á því og fylgja því eftir ef annað kemur ekki til. En hér er um að ræða opinbera þjónustu sem er veitt lögum samkvæmt og ég hef trú á því að menn átti sig á því að það verður einhver að taka við keflinu. Þetta er ekkert séríslenskt vandamál. Póstfyrirtæki í öllum hinum vestræna heimi standa frammi fyrir sama vandamáli og hafa gert það undanfarin ár. Það má segja að sérstaðan hér á Íslandi er sú að Íslandspóstur er sennilega eina, eða eitt af örfáum póstfyrirtækjum í Evrópu sem ekki hefur notið neinna framlaga úr ríkissjóði. Norski pósturinn er til dæmis að fá sjö þúsund milljónir í greiðsluir frá norska ríkinu fyrir að sinna alþjónustunni. Sænski og danski pósturinn, sem er í sameiginlegu fyrirtæki, fékk þrjátíu milljarða frá ríkisstjórn Svíþjóðar og Danmerkur í byrjun þessa árs. Svona mætti lengi áfram telja,“ segir Ingimundur.

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Engar hækkanir skráðar í dag

Mesta lækkun dagsins


Engar lækkanir skráðar í dag
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.