Viðskipti innlent

Citi ráðgjafi við sölu á Valitor 

Hörður Ægisson skrifar
Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka
Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka
Bandaríski fjárfestingarbankinn Citi verður ráðgjafi Arion banka við sölu á Valitor, dótturfélagi bankans, en áformað er að selja félagið, að hluta eða í heild, í opnu söluferli á næsta ári. Gert er ráð fyrir því að gengið verði formlega frá ráðningu á Citi á næstu dögum, samkvæmt heimildum Markaðarins. Citi var einnig ráðgjafi Arion banka í hlutafjárútboði bankans fyrr á árinu.

Arion banki hefur um nokkurt skeið horft til þess að selja stóran meirihluta í Valitor til erlendra fjárfesta sem myndu leiða alþjóðlegan vöxt og viðgang félagsins. Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka, hefur sagt að bankinn kunni að hafa áhuga á að halda eftir um 20 til 25 prósenta hlut í Valitor og þannig geta fengið hlutdeild í mögulegri virðisaukningu félagsins í framtíðinni.

Umsvif Valitor hafa aukist gríðarlega síðustu ár – nærri 400 manns starfa hjá samstæðunni – en yfir 70 prósent tekna félagsins koma til vegna erlendrar starfsemi, einkum í Bretlandi. Heildartekjur Valitor í fyrra námu 20 milljörðum og eigið fé félagsins er um 16 milljarðar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×