Viðskipti innlent

Rekstrartekjur Regins námu 5,8 milljörðum

Birgir Olgeirsson skrifar
Helgi S. Gunnarsson er forstjóri Regins fasteignafélags.
Helgi S. Gunnarsson er forstjóri Regins fasteignafélags. Vísir/GVA
Rekstrartekjur hlutafélagsins Regins námu 5,8 milljörðum króna í  fyrra. Þar af námu leigutekjur 5,4 milljörðum króna. Hækkun leigutekna frá sama tímabili í fyrra var 14%. Hækkun leigutekna er að mestu tilkomin vegna nýrra eigna.

Félagið sérhæfir sig í leigu á atvinnuhúsnæði og segir eftirspurnina eftir slíku góða. Það sem af er ári hefur verið gengið frá nýjum leigusamningum fyrir um 37.000 fermetrum. Um 40% af þessum samningum er endurnýjun á eldri samningum.

Eignasafn Regins er sagt samanstanda af atvinnuhúsnæði með háu útleiguhlutfalli og traustum leigutökum. Fjöldi fasteigna í lok tímabilsins var 121 og heildarfermetrafjöldi þeirra eigna er um 370 þúsund. Útleiguhlutfall á safni Regins er um 97,5% miðað við þær tekjur sem 100% útleiga gæfi.

Fasteignasafn Regins er metið á gangvirði í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Safnið er metið í lok hvers árs í tengslum við gerð ársreiknings sem og í lok hvers uppgjörstímabils. Matsbreyting á fyrstu níu mánuðum ársins nam 1.932 m.kr. Þann 12. september lauk lokuðu útboði á nýjum skuldabréfaflokki félagsins, REGINN250948 sem gefinn var út undir útgáfuramma félagsins. Seld voru skuldabréf fyrir 17.180 m.kr. skuldabréfin bera 3,6% fasta verðtryggða vexti, eru til 30 ára og voru seld á pari. Flokkurinn er veðtryggður með sértæku tryggingarfyrirkomulagi. Skráning skuldabréfaflokksins á Aðalmarkað Nasdaq Iceland hf., fór fram í október sl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×