Körfubolti

Nýjasti liðsfélagi LeBron er búinn að vera í NBA-deildinni í átján ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tyson Chandler.
Tyson Chandler. Vísir/Getty
LeBron James og félagar í Los Angeles Lakers fengu liðsstyrk í gær þegar reynsluboltinn Tyson Chandler samdi við NBA-liðið.

Tyson Chandler er 36 ára og 216 sentímetra miðherji sem hefur undanfarin ár spilað með Phoenix Suns.

Chandler átti eitt ár eftir af samningi sínum við Phoenix Suns en félagið keypti samninginn upp. Chandler gaf eftir 2,1 milljón dollara af þeim 13,6 milljónum dollurum sem hann átti á fá fyrir þetta fjórða og síðasta ár sitt með Suns.

Tyson Chandler var því laus allra mála og gat samið við Los Angeles Lakers. Lakers borgar honum 2,1 milljón dollara fyrir þetta tímabil samkvæmt heimildum bandarískra miðla.

Chandler er á sínu átjánda tímabili í NBA-deildinni en hann varð NBA-meistari með Dallas Mavericks 2011 eftir sigur á LeBron James og félögum í Miami Heat í lokaúrslitunum.





Tyson Chandler er frá Los Angeles og það átti mikinn þátt í því að hann ákvað að taka þátt í uppbyggingu Lakers liðsins eins og kemur fram í viðtalinu við hann hér fyrir neðan.

LeBron James og Tyson Chandler voru síðast liðsfélagar á Ólympíuleikunum í London 2012 þegar þeir unnið gull með bandaríska landsliðinu.

Tyson Chandler er öflugur varnarmaður en hann var kosinn besti varnarmaður NBA-deildarinnar tímabilið 2011-12.

Chandler var aðeins með 3,7 stig að meðaltali í leik í þeim sjö leikjum sem hann hafði spilað með Phoenix Suns í vetur en var með 6,5 fráköst og 9,1 frákast að meðaltali á 25,0 mínútum í fyrra.







NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×