Körfubolti

Kyrie Irving fékk væna sekt fyrir að kasta boltanum upp í stúku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kyrie Irving.
Kyrie Irving. Vísir/Getty

Ein aðalstjarna Boston Celtics var greinilega reiðari yfir því að besti maður vallarins hafi tekið tilgangslaust skot í blálokin en að sá hinn sami hefði áður verið búinn að skora 48 stig á hann í sannfærandi sigri.

NBA-deildin tók hart á óvæntu reiðikasti Kyrie Irving og sektaði bakvörðinn daginn eftir 115-107 tap Boston í Denver.

Kyrie þarf að greiða 25 þúsund dollara, eða rétt rúmar þrjár milljónir íslenskra króna, í sekt fyrir að kasta boltanum upp í stúku eftir að lokaflautið gall í leik Boston Celtics og Denver Nuggets í fyrrinótt.Kyrie Irving og félagar í Boston liðinu réðu ekkert við Jamal Murray í leiknum en Jamal Murray skoraði alls 48 stig í leiknum.

Jamal Murray ætlaði sér að komast í 50 stiga hópinn þegar hann tók þriggja stiga skot í lokin þegar úrslitin voru ráðin og venjan er að láta leiktímann renna út.

Kyrie Irving var mjög ósáttur með þessa ákvörðun Jamal Murray og tók boltann í framhaldinu og henti honum upp í stúku.

„Svona gerir þú bara ekki. Þetta snýst um hefðir og ákveðna virðningu innan okkar deildar sem og alls körfuboltans. Þetta er lélegt og sýnir skort á þroska,“ sagði Kyrie Irving meðal annars og bætti svo við: „Við eigum eftir að mæta þeim aftur.“

Jamal Murray segir að kappið hafi hreinlega borið hann ofurliði og hann hafi ekki hugsað þetta til enda. Hann ætlaði sér aldrei að sýna einhverja óvirðingu með þessu.

Jamal Murray er aðeins 21 árs gamall en hann hitti úr 19 af 30 skotum sínum í leiknum þar af 5 af 11 fyrir utan þriggja stiga línuna. Denver hefur unnið 9 af fyrstu 10 leikjum sínum í NBA í vetur.

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.