Körfubolti

Enginn feluleikur fyrir stjörnuleik NBA í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Curry og LeBron James.
Stephen Curry og LeBron James. Vísir/Getty

Stjörnuleikur NBA deildarinnar í körfubolta verður með sama sniði og í fyrra sem þýðir enginn leikur á milli Austur- og Vesturdeildarinnar heldur munu tveir vinsælustu leikmenn deildarinnar velja sér leikmenn í sín lið.

Fyrirliðarnir kusu sér leikmenn fyrir stjörnuleik NBA-deildarinnar í fyrra og gera það aftur á þessu tímabili. Nú verður hinsvegar enginn feluleikur í kringum val þeirra eins og fyrir ári síðan.

Það vakti athygli í fyrra þegar NBA-deildin breytti fyrirkomulagi stjörnuleiksins og lét þá tvo leikmenn, sem fengu flest atkvæði, velja sér leikmenn til skiptis. Leikmennirnir sem komu til greina voru leikmenn sem fengu flest atkvæði í árlegri kosningu stuðningsmanna í stjörnuleikinn sem og þeir leikmenn sem þjálfarar völdu til að spila leikinn.

Stephen Curry og LeBron James fengu flest atkvæði af öllum leikmönnum á síðasta tímabili og fengu því þetta verkefni. Valið þeirra var aftur á móti á bak við luktar dyr og aðeins fréttist af vali þeirra þegar það var afstaðið.

Nú ætlar NBA-deildin aftur á móti að sjónvarpa vali fyrirliðanna en það er ljóst að aðeins annar þeirra fær þetta hlutverk núna því að þessu sinni spila þeir Stephen Curry og LeBron James báðir í Vesturdeildinni.

LeBron James talaði um það strax eftir valið í fyrra að NBA hefði átt að sjónvarpa því og fyrirkomulagið var mikið gagnrýnt í bandarískum fjölmiðlum. NBA ákvað því að verða við þeim óskum að sýna valið í beinni.

Stjörnuleikurinn fer fram í Charlotte 17. febrúar á næsta ári en kosning fyrirliðanna fer líklega fram annaðhvort 30. eða 31. janúar. 

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.