Körfubolti

Milwaukee Bucks fór illa með meistara GSW á þeirra eigin heimavelli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Curry fór meiddur af velli í tapinu í nótt.
Stephen Curry fór meiddur af velli í tapinu í nótt. Vísir/Getty

Milwaukee Bucks hefur byrjað tímabilið frábærlega í NBA-deildinni í körfubolta og í nótt sýndi liðið að það er engin tilviljun þegar Giannis Antetokounmpo og félagar unnu 23 stiga sigur á meisturum á Golden State Warriors og það í Oakland.

Oklahoma City Thunder þurfti engan Russell Westbrook til að vinna auðveldan sigur á líflausu liði Houston Rockets en Boston Celtics þurfti aftur á móti framlengingu til að vinna Phoenix Suns.

Milwaukee Bucks varð annað liðið til að vinna Golden State á leiktíðinni þegar liðið rasskellti meistarana 134-111 á þeirra eigin heimavelli. Bucks liðið var þrettán stigum yfir í hálfleik, 64-51, og 26 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 105-79.

Giannis Antetokounmpo þurfti aðeins að spila í 26 mínútur en var með 24 stig, 9 fráköst og 4 stoðsendingar á þeim. Eric Bledsoe var hinsvegar stigahæstur í Milwaukee liðinu með 26 stig á 26 mínútum og Michael Brogdon var með 20 stig.

Klay Thompson var stigahæstur hjá Golden State með 24 stig og Kevin Durant var með 17 stig og 9 stoðsendingar. Stephen Curry meiddist í þriðja leikhluta og spilaði ekki eftir það. Hann var með 10 stig á 26 mínútum. Warriors lék líka án Draymond Green.

Kyrie Irving skoraði 18 af 39 stigum sínum í fjórða leikhluta og framlengingu þegar Boston Celtics vann 116-109 sigur á Phoenix Suns á útivelli. Boston lenti mest 22 stigum undir en tókst að vinna sig aftur inn í leikinn og tryggja sér síðan sigur í framlengingu.

Irving skoraði sex fyrstu stigin í framlengingunni en það var þriggja stiga karfa Marcus Morris sem kom liðinu í hana 1,1 sekúndu fyrir leikslok. Devin Booker skoraði 38 stig fyrir Phoenix liðið.

Paul George skoraði 20 stig fyrir Oklahoma City Thunder sem vann 98-80 sigur á Houston Rockets. Russell Westbrook missti af sínum öðrum leik í röð vegna ökklameiðsla en Thunder liðið hefur nú unnið sjö leiki í röð.

George var einnig með 11 fráköst, 6 stoðsendingar og 6 stolna bolta en Steven Adams bætti við 19 stigum og 10 fráköstum. James Harden skoraði 19 stig fyrir Houston en hitti aðeins úr 7 af 19 skotum sínum.

Úrslitin í NBA-deildinni í nótt:
Golden State Warriors - Milwaukee Bucks 111-134
Portland Trail Blazers - Los Angeles Clippers    116-105    
Phoenix Suns - Boston Celtics    109-116 (100-100)    
Oklahoma City Thunder - Houston Rockets    98-80

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.